Þegar fjölskyldufólk greiðir 60.000-100.000 krónur árlega fyrir rafmagn til ljósa og heimilistækja í landi ótæmandi vatnsorku og afskrifaðra orkuvera, er greinilega vitlaust gefið í spilunum. Hin margrómaða auðlind er ekki að skila árangri í samræmi við væntingar þjóðarinnar.
Sumpart er fólk að niðurgreiða rafmagn til stóriðju, einkum til Grundartanga. Sumpart er fólk að borga herkostnaðinn af orkuverinu við Blöndu, sem reist var, þótt þáverandi stóriðjukaupandi hlypi úr skaftinu. Sumpart er fólk bara að borga fyrir vondan rekstur Landsvirkjunar.
Um nokkurt skeið hefur svo litið út, sem herkostnaður fólks af vatnsorku mundi aukast verulega vegna glannalegra ráðagerða stjórnvalda um orku- og álver á Austurlandi. Fólk getur þó andað léttara í bili, því að Norsk Hydro hefur slegið málinu á frest um óákveðinn tíma.
Ferill Reyðaráls er farinn að minna óþægilega á feril álversins á Keilisnesi, sem mánuðum og árum saman var sagt vera í burðarliðnum. Í báðum tilvikum voru ráðherrar með stóriðju á heilanum, reyndu í lengstu lög að halda í drauminn og enduðu með því að festast í eigin blekkingavef.
Draumurinn um Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun var í rauninni martröð, sem hefði skaðað þjóðfélagið, ef orðið hefði að veruleika. Skipulagsstofnun var í haust búin að hafna orkuverinu vegna slæmra umhverfisáhrifa og ýmis peningaleg reikningsdæmi voru óhagstæð.
Seðlabankinn hefur nýlega upplýst, að vextir í þjóðfélaginu hefðu almennt orðið 2-2,5% hærri á framkvæmdatímanum, en þeir hefðu ella orðið. Útreikningar sýna, að þetta felur í sér fjölskylduskatt, sem nemur 120 þúsund krónum á ári hjá þeim, sem skulda fimm milljónir króna.
Sami vaxtaskattur hefði lagst á alla þá, sem hefðu viljað afla sér lánsfjár til eflingar atvinnulífs á öðrum sviðum. Reyðarál hefði raunar þurrkað mikið af tiltæku lánsfé, einkum hjá lífeyrissjóðunum, sem átti að ginna til samstarfs. Það fé hefði ekki verið til ráðstöfunar í atvinnulífinu.
Ráðagerðir stjórnvalda fólu þar á ofan ekki í sér, að orkuver og stóriðja greiddu markaðsverð fyrir ríkisábyrgð, né heldur að þau greiddu mengunar- og umhverfisskatt í samræmi við reglur, sem Alþjóðabankinn er farinn að beita. Síðasta upphæðin gæti numið milljarði króna á hverju ári.
Fyrir utan óbætanlegt tjón á stærsta ósnortna víðerni Evrópu hefði þjóðin beðið mikið fjárhagslegt tjón af Reyðaráli og Kárahnjúkavirkjun, ef martröðin hefði orðið að veruleika. Tjónið hefði falizt í háum vöxtum, fjármagnsskorti og háu verði á rafmagni til ljósa og heimilistækja.
En veruleikafirring stjórnvalda var orðin svo mikil, að í nokkrar vikur leyndi orkuráðherra þjóðina nýjustu upplýsingum um tregðu Norsk Hydro. Hún var að reyna að knýja virkjanaleyfi í gegn á Alþingi áður en tregðan kæmist upp, sem hlaut samt að gerast vikunni fyrr eða síðar.
Miðað við fjölbreyttar upplýsingar, sem Skipulagsstofnun ríkisins, Seðlabankinn, Alþjóðabankinn og ýmsir hagfræðingar hafa lagt í púkkið, er ástæða til að hafa áhyggjur af, að rúmlega helmingur þjóðarinnar var til skamms tíma reiðubúinn að fallast á framkvæmdirnar eystra.
Nú er tækifæri fyrir fólk að láta af stuðningi við martröðina og fara að hlusta á tölur, sem sýna, að ráðagerðirnar austur á landi eru mun óhagstæðari en stjórnvöld hafa hingað til viljað vera láta.
Jónas Kristjánsson
FB