Frestur talinn beztur

Greinar

Eitt helzta spakmæli íslenzkrar þjóðarsálar er, að frestur sé á illu beztur. Þess vegna urðu flestir stjórnmálamenn fegnir, þegar Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu. Það gerði okkar mönnum kleift að hætta að sinna máli, sem var þeim flestum óljúft að sinna.

Við höfum vanizt því, að málum sé ekki sinnt fyrr en á síðustu stundu og eftir hana. Okkur er ótamt að leysa verkefni í tæka tíð og viljum heldur berjast um á hæl og hnakka, þegar allt er komið í óefni. Þess vegna er reddarinn séríslenzkt fyrirbæri í atvinnulífinu.

Dæmi um viðhorfið er breyting á kosningakerfinu, sem lofað var í hvítri bók stjórnarflokkanna, þegar þeir komust til valda árið 1991. Þeir eru fyrst núna, í árslok 1994, að boða til nefndar stjórnmálaflokkanna um málið, þegar málið er nærri örugglega fallið á tíma á kjörtímabilinu.

Okkar mönnum er ótamt að vera undir framtíðina búnir. Þeir vilja heldur mæta aðvífandi vandamálum eftir hendinni. Þeir sjá ekki neina hagkvæmni í að taka þátt í hönnun framtíðarinnar hjá Evrópusambandinu, en eru fljótir að laga sig að breyttum aðstæðum.

Þannig látum við yfir okkur ganga skæðadrífu af reglugerðum, sem upprunnar eru í Evrópusambandinu, og gerum þær að íslenzkum, án þess að okkur þyki skrítið að meðtaka þær páfabullur. En við bregðumst ókvæða við, ef einhver vill, að við göngum í sambandið.

Þess vegna líður kliður feginleikans um þjóðfélagið, þegar menn sjá, að Norðmenn eru á sama báti. Við höfum fengið frábæra afsökun fyrir því að halda áfram að gera ekki neitt í Evrópumálunum, halda áfram að fresta því að búa í haginn fyrir umsókn okkar um Evrópuaðild.

Við ættum að vera á fullu við að undirbúa skothelt sjávarútvegskerfi, sem gerir Evrópusambandinu illkleift að krefjast aðildar að stjórn efnahagslögsögunnar við Ísland. Við þyrftum að vera undir það búin að taka þann slag sem fyrst. En við gerum bara alls ekki neitt.

Raunar væri núna tækifæri til að stinga tánni varlega í vatnið, úr því að ráðamenn Evrópusambandsins hafa séð, að Norðmenn höfnuðu aðild, af því að sjávarútvegsákvæðin voru þeim of óhagstæð. Evrópsku mandarínarnir vita nú, að Ísland semur ekki af sér fiskimiðin.

Flestir íslenzkir pólitíkusar eru sammála um, að niðurstaðan í Noregi skeri úr um, að óþarfi sé að ræða Evrópu í næstu kosningabaráttu, og eru greinilega í meira lagi fegnir. Við skulum heldur tala um það seinna, segja þeir, við skulum tala um það fyrir kosningarnar 1999.

Undir niðri vita þeir, að einhvern tíma verður að taka slaginn. En þeir telja, að um það atriði gildi gamla spakmælið, að frestur sé á illu beztur. Þess vegna fást þeir ekki til að byrja að líta á málið fyrr en allt er komið í óefni og þá þegar er orðið stórtjón af aðgerðaleysi.

Hugsanagangurinn er þessi: Ef Norðmenn hefðu farið inn, hefðu þeir fengið betri kjör en við fyrir sinn fisk og þá hefðum við neyðst til að hugsa málið. Úr því að þeir fóru ekki inn, þurfum við ekki að hugsa málið fyrr en seinna. Seinna. Allt nema bara alls ekki núna.

Mjög fáum dettur í hug, að þessi spurning um betri kjör fyrir fiskinn eigi að leiða til umhugsunar um, hvort slík kjarabót sé ekki æskileg, hvort sem Norðmenn hafa fengið hana á undan okkur eða muni fá hana á eftir okkur. Við viljum ekki hafa frumkvæði, bara viðbrögð.

Þetta er afstaða þjóðar, sem vill alls ekki taka örlög sín í eigin hendur, heldur vill leggjast í vörnina og mæta aðvífandi vandræðum eins og þau eru hverju sinni.

Jónas Kristjánsson

DV