Stríðið gegn Írak er hafið og um leið er hafið hið hefðbundna áróðursstríð, er CNN og aðrir bandarískir fjölmiðlar fara að birta fölsuð myndskeið, sem eiga að sýna grimmd Saddam Hussein og gereyðingarvopn Íraks. Í fyrra Persaflóastríðinu var t.d. gert mikið með þá frétt, að Írakar hefðu drepið börn á spítala í Kúveit, sem síðan reyndist vera uppspuni frá rótum. Alþjóðasamtök ritstjóra hafa sýnt fram á mikið magn svipaðra vinnubragða Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Kosovo. Tilgangur allra þessara falsana er að sannfæra sjónvarpsáhorfendur og lesendur dagblaða á borð við Morgunblaðið, að óvinurinn sé feiknarlega andstyggilegur og því sé hrein guðs mildi, að einhver hafi bein í nefinu til að fara í stríð við hann. Allir vita, að Saddam Hussein lýgur hratt, en fáir átta sig á, að reynslan sýnir, að vestræn hernaðaryfirvöld ljúga enn hraðar.