Fréttamiðlun raskast

Greinar

Einn fréttamiðillinn enn hefur bætzt við. Fréttir netmiðla keppa við fréttir annarra fjölmiðla um athygli fólks á tíma mikils framboðs afþreyingar af ýmsu tagi. Fyrir einni öld voru fréttir helzt sagðar í blöðum, en nú koma þær líka í útvarpi, sjónvarpi og á netinu.

Mesta furða er, hversu vel dagblöð hafa staðizt samkeppnina. Þunglamatækni þeirra stenzt ekki öðrum fjölmiðlum snúning í hraða. Þau segja ekki fréttir í beinni útsendingu. Samt eru þau svo vinsæl, að notendur vilja borga fyrir þau, en ekki aðra fréttamiðla.

Sérhver nýr fréttamiðill er sumpart viðbót við fjölmiðlaneyzlu fólks og tekur sumpart frá hinum, sem fyrir eru. Með almennri tölvueign og almennri nettengingu á tölvum má búast við, að fréttir netmiðla spilli afkomu einhverra þeirra fjölmiðla, sem fyrir eru.

Samt er athyglisvert, að netmiðlar koma ekki af neinu afli inn í fréttaheiminn. Þeir treysta sér ekki til að biðja notendur um greiðslu fyrir vikið, heldur treysta eingöngu á auglýsendur. Enda eru fréttir netmiðla enn að mestu uppsuða úr dagblaðafréttum.

Ekki hefur fundizt nein aðferð til að fá notendur netfrétta til að greiða fyrir þjónustuna, ekki frekar en tókst á sínum tíma að fá notendur útvarpsfrétta og sjónvarpsfrétta til að greiða fyrir hana. Fréttir eru í öllum þessum miðlum fluttar í opinni dagskrá.

Bandaríkin eru forustuland í þróun fjölmiðla. Þar verða nýjungar til og breiðast síðan um heiminn. Nýjar rannsóknir vestra sýna, að aukin notkun netfrétta er sumpart hrein viðbót við fréttanotkun fólks og sumpart tekin frá sjónvarpsnotkun þess, en ekki blaðalestri.

Að vísu sígur blaðalestur einnig, en þar eru tölur samt háar enn. Enn lesa tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum dagblöð reglulega, en notkun kvölddagskrár sjónvarps hefur sigið úr þremur af hverjum fjórum niður í einn af hverjum tveimur.

Það, sem hefur gerzt í Bandaríkjunum, er, að nýju kynslóðirnar, sem eru aldar upp við netið, láta fréttir þess koma í stað sjónvarpsfrétta. Aðeins fjórði hver notandi netfrétta horfir einnig á sjónvarpsfréttir. Þetta spáir illu um framtíð sjónvarps sem fréttamiðils.

Hlutföllin, sem hér hafa verið nefnd, eiga eingöngu við almennar sjónvarpsstöðvar með almennum fréttum, en ekki sérhæfðar stöðvar, sem flytja afmarkað efni á borð við íþróttir, fjárfestingar eða náttúruskoðun. Sérhæft fréttasjónvarp blómstrar áfram.

Sennilega eru Bandaríkjamenn byrjaðir að átta sig á, að leikhús fremur en fréttaflutningur er eðli fréttasjónvarps eins og annars sjónvarps. Fólk er þar farið að bila í þeirri trú, að fréttir hljóti að vera sannar, af því að fólk hafi séð þær eigin augum í sjónvarpinu.

Persaflóastríðið var sagt sigur sjónvarps sem fréttamiðils. Menn trúðu slíku þá, þótt sumir hafi reynt að benda á, að beztu fréttir af því stríði komu í brezku útvarpi og góðum dagblöðum. Menn vita nú, að sjónvarpið gaf veruleikafirrta og falsaða mynd af stríðinu.

Fyrir framan sjónvarpsvélar er sumpart framleiddur og verður sumpart ósjálfrátt til sérstakur sýndarveruleiki, eins konar leikhús, sem þarf ekki að vera í neinu sambandi við veruleikann, sem við heyrum um í útvarpi og lesum um í dagblöðum eða vikuritum.

Ef gengi fjölmiðla breytist hér að bandarískum hætti, má búast við, að leikrænar fréttir sjónvarps eigi erfiða framtíð í aukinni fréttasamkeppni nýrra fjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV