Friðarferli á spori

Greinar

Friðarferlið er aftur komið á sporið í Norður-Írlandi eftir tæplega tveggja ára hlé. Deiluaðilar eru að vísu ekki við sama borð, en í sama húsi. Það er mikil framför frá því, sem áður var. Allir hafa undirritað yfirlýsingu um að beita ekki ofbeldi á viðræðutímanum.

Sá, sem stjórnar nú viðræðunum, hóf þær raunar fyrir hálfu þriðja ári, þegar stjórnir Bretlands og Írlands náðu samkomulagi um hann sem sáttasemjara. Þetta er fyrrverandi öldungadeildarþingmaður frá Bandaríkjunm, George Mitchell, af írskum ættum.

Í fyrra skiptið bjó hann til formúlu til að leysa aðgang stjórnmálaflokksins Sinn Fein, sem grunaður er um að vera pólitískur armur lýðveldishersins IRA, er staðið hefur fyrir mörgum ódæðisverkum í Norður-Írlandi. Formúlan fólst í samsíða vopnahléi og viðræðum.

Ríkisstjórn Johns Majors í Bretlandi var á sínum tíma ekki sátt við þessa formúlu og vildi fá fyrst langt vopnahlé, áður en Sinn Fein væri boðið til samningaborðs. Major var svo hræddur við formúlu Mitchells, að hann kippti fótunum undan hlutverki hans.

Þetta var þáttur í kosningaundirbúningi Majors, sem óttaðist að viðræður með aðild Sinn Fein mundu skaða Íhaldsflokkinn í kosningabaráttunni. Þetta nýttist honum ekki, hann koltapaði í kosningunum og við tók stjórn, sem tekur Írlandsmálið af meiri alvöru.

Eitt fyrsta verk Tony Blair sem forsætisráðherra var að koma Mitchell-nefndinni aftur á flot. Eftir mikið japl og jaml og fuður hefur fyrsta skrefið nú verið stigið. Fulltrúar Sinn Fein og flokks sambandssinna, UUP, sitja á sáttafundum í Stormont-höll í Belfast.

Æðibunumönnum á báða bóga er illa við þessa þróun mála. Hryðjuverk var framið í Belfast í síðustu viku til að grafa undan fundunum í Stormont. Ekki er vitað, hver framdi verkið. Líklegt er þó talið, að jaðarhópur á öðrum hvorum vængnum hafi verið að verki.

Ekki tókst á þennan hátt að sprengja menn frá samningaborði. Þar með er ekki sagt, að allt sé komið á beina braut. Viðræðurnar hafa fyrstu dagana einkum falizt í klögumálum og ásökunum á báða bóga. En enginn hefur lengur efni á að vera úti í kuldanum.

Einkum hafa sambandssinnar átt erfitt með að kyngja aðild Sinn Fein. Þeir hafa verið og eru enn í valdastólum í Norður-Írlandi og neyðast nú til að ræða um að deila völdum með minnihlutahópum, sem þeir telja andvíga núverandi þjóðskipulagi Norður-Írlands.

Komið er meira en nóg af blóðbaði. Óöldin hefur staðið í tæpa þrjá áratugi. 3.225 manns hafa fallið í hryðjuverkum á Norður-Írlandi, ýmist af völdum þeirra, sem vilja tengjast írska lýðveldinu í suðri, eða hinna, sem vilja halda fast í sambandið við Bretland í austri.

Í þrjá áratugi hefur Norður-Írland verið svartur blettur á Bretlandi og Írlandi sameiginlega. Hvort tveggja eru þetta vestræn lýðræðisríki, sem búa við mikla og ört vaxandi velmegun. Þau geta engan veginn átt aðild að miðaldaástandi á landamærum sínum.

Staðan er auðvitað flókin. Í Norður-Írlandi deila afkomendur heimamanna og afkomendur innflytjenda. Þar deila tvær greinar kristinna trúarbragða. Þar deila ríkir og fátækir. Þar deila meirihluti og minnihluti. En þetta átti ekki að þurfa að kosta 3.225 mannslíf.

“Vilji er allt, sem þarf”, sagði Gunnar Thoroddsen einu sinni, þegar syrti í álinn. Nú er tækifærið komið til Norður-Írlands og ekki þarf lengur neitt nema viljann.

Jónas Kristjánsson

DV