Friðarmenn sundra.

Greinar

Formaður friðarráðs hollenzku kirkjunnar, Jan Faber, sagði um daginn, að tillögur Reagans Bandaríkjaforseta um afnám meðaldrægra kjarnorkuflauga í Evrópu væru bara einhliða áróður, sem Sovétríkin mundu ekki geta fallizt á.

Ummæli Fabers sýna, hversu mikinn vanda friðarhreyfingin í Evrópu skapar umhverfi sínu. Hún freistar Kremlverja til að reyna að komast upp með nýjan og ógnvekjandi vígbúnað án þess að Vesturlöndum takist að ná jafnvægi.

Vel getur verið, að Kremlverjum og kjarnorkuandstæðingum takist að hindra staðsetningu meðaldrægra kjarnorkueldflauga í flestum löndum Vestur-Evrópu öðrum en Frakklandi og Bretlandi án gagnkvæmni af hálfu Sovétríkjanna.

Í þessu skiptir hið hernaðarlega misvægi minna máli en hið pólitíska. Berskjölduð Vestur-Evrópa verður að taka meira tillit til óska Sovétríkjanna en verið hefur. Finnlandiseringin færist vestur eftir álfunni.

Kremlverjar þurfa ekki að beita hernaðarlegum yfirburðum sínum gegn Vestur-Evrópu. Þeir þurfa aðeins að beita vitneskjunni um, að þessir yfirburðir séu til, – að einhliða hafi Sovétríkin líf allra Vestur-Evrópubúa í hendi sér.

Kremlverjar hafa ekkert upp á að bjóða nema hernaðarlegan mátt. Þeir hafa ekkert aðdráttarafl í hugmyndafræði, efnahagsmálum, skriffinnsku og lífskjörum til að tryggja í heiminum sigur kommúnismans, sem þeir telja óhjákvæmilegan.

Í skjóli vígvélarinnar munu Sovétríkin draga á langinn viðræður um afnám meðaldrægra kjarnorkueldflauga og treysta friðarhreyfingunni í Vestur-Evrópu til að hindra hið pólitíska jafnvægi, sem mundi felast í vestrænum flaugum af því tagi.

Ef þetta tekst að meira eða minna leyti, er líklegt, að einangrunarstefnu aukist mjög fylgi í Bandaríkjunum. Hún hefur þegar náð fótfestu í Hvíta húsinu, þar sem Kaliforníumennirnir fyrirlíta linkind Vestur-Evrópubúa.

Þar vestra vex þeirri skoðun fylgi, að Vestur-Evrópa sé vandræðastaður, þar sem hver höndin sé uppi á móti annarri og þar sem menn vilji velta á Bandaríkjamenn kostnaði og fyrirhöfn við að verja álfuna gegn Kremlverjum.

Bandaríski kjallarahöfundurinn William Safire segir blátt áfram: “Getum við varið Evrópu, sem vill ekki verja sig sjálf?” Þegar svo virtur maður kastar fram slíkri spurningu, mætti hrollur gjarna setjast að Vestur-Evrópubúum.

Friðarhreyfingin í Vestur-Evrópu er ein mesta ógnunin við frið í Evrópu. Þessi ómeðvitaða fimmta herdeild klýfur samstöðu Vestur-Evrópu, fælir Bandaríkjamenn á brott og auðveldar Kremlverjum að ná markmiðum sínum.

Friðarhreyfingin er svipað böl og stjórnarstefnan í Washington, sem hefur á þessu ári einkum falizt í hernaðarlegum mannalátum, vel auglýstum fjárfestingum í nýjum vopnakerfum og ómstríðum andkommúnisma.

Utanríkisstefna Reagans Bandaríkjaforseta er að mörgu leyti afleit. En hann skilur þó, alveg eins og Thatcher hin brezka og Mitterrand hinn franski, að gegn valdsdýrkendum á borð við Kremlverja dugir aðeins að sýna festu.

Eina vonin til að hafa Kremlverja ofan af heimsvaldadraumum er að sýna fram á órofna og eindræga samvinnu vestrænna ríkja, sem komi bæði fram í traustum landvörnum og einnig í sívökulum vilja til samninga um afvopnun.

Jónas Kristjánsson

DV