Friðaröld í Evrópu

Greinar

Ef byltingin í Austur-Evrópu fellur í tiltölulega hægan og útreiknanlegan farveg, má reikna með, að í vændum sé friðaröld í Evrópu, sem breyti forsendum hernaðar- og varnarbandalaganna tveggja, sem hafa verið einkennistákn kaldastríðstíma rúmra fjögurra áratuga.

Að sinni er ástandið þvert á móti ótryggt. Komið hefur í ljós, að óbeit fólks í Austur-Evrópu á grotnandi valdakerfi félagshyggjunnar er miklu meiri en reiknað var með. Sérstaklega hefur borið á þessu síðustu viku á upphlaupum og útifundum í Austur-Þýzkalandi.

Austur-Þjóðverjar hafa tekið mjög nærri sér upplýsingar um þjófnað og bílífi yfirstéttarinnar. Þeir eru í hrönnum að sveiflast á þá skoðun, að ríkið sjálft sé siðferðilega hrunið og að bezt sé, að landið renni inn í Vestur-Þýzkaland. Fólkið veifar vestur-þýzkum fánum.

Þetta mun reyna á þolrif valdhafa í Sovétríkjunum, sem hafa litið á Austur-Þýzkaland sem hornstein valdakerfis síns og eins konar tryggingarbréf gegn nýju Stór-Þýzkalandi. Þetta mun því æsa íhaldsmenn í Sovétríkjunum enn frekar gegn Gorbatsjov og stefnu hans.

Ekki er óhugsandi, að annaðhvort falli Gorbatsjov eða stefna hans og að skelfingu lostnir ráðamenn í Kreml grípi til vanhugsaðra örþrifaráða, sem hleypi öllu í bál og brand í Evrópu. En hitt er þó líklegra, að þeir geti ekki fundið nothæfa ofbeldisleið úr ógöngunum.

Varsjárbandalagið er meira eða minna hrunið, nema að nafninu til. Ef Rauði herinn gerði innrás í Austur-Evrópu, er næsta víst, að herir Austur-Evrópu mundu snúast gegn hinu hataða heimsveldi. Sovétríkin hafa einfaldlega komið sér út úr húsi í þeim hluta álfunnar.

Líklegast er, að stjórnvöld í Sovétríkjunum muni eiga fullt í fangi með að fást við miðflóttaöfl innan landamær anna og séu ekki aflögufær utan landamæranna. Í nærri öllum héruðum utan gamla Rússlands er fólk að reyna að auka sjálfstæði sitt gagnvart Moskvuvaldinu.

Stjórnvöld og kommúnistaflokkar í Eystrasaltslöndunum virða tilskipanir og bænir Moskvumanna að vettugi. Kákasusfjöll ramba á barmi borgarastyrjaldar. Jafnvel Úkraína er farin að hugsa sér til hreyfings. Sovétríkin eru byrjuð að molna og grotna sem ríkiseining.

Ekki er nóg með, að Rauði herinn getur ekki reiknað með þátttöku herja Austur-Evrópu í átökum gegn Vesturlöndum. Þar á ofan eru nýir valdhafar í Austur-Evrópu byrjaðir að óska eftir, að óvinsælt setulið Rauða hersins fari að tygja sig á brott úr löndum þeirra.

Ætla mætti, að fögnuður ríkti út af þessu í Atlantshafsbandalaginu. En það er segin saga, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur andstæðing sinn. Um leið og Varsjárbandalagið molnar að innanverðu, rýrnar tilverugrundvöllur bandalagsins, sem stofnað var til að verjast hugsanlegri árás að austan.

Valdahlutföll og valdastraumar eru að breytast í Evrópu. Vestur-Þýzkaland er að verða þungamiðja Evrópu með viðskiptatengsl til allra átta. Ítalía hefur reynt að taka upp gamla Habsborgaraþráðinn með viðræðum við Austurríki, Ungverjaland og Júgóslavíu.

Flest bendir til, að liðinn sé tími heimsveldanna og hernaðarlegra bandalaga þeirra. Þau munu smám saman fjara út og við taka margvísleg net sjálfstæðra miðlungsvelda. Það verður friðsamlegur tími, því að allir verða önnum kafnir í arðvænlegum viðskiptum.

Ef Evrópa kemst yfir tímabundna spennu af völdum byltingarinnar í Austur-Evrópu, mun renna upp nýtt framfaraskeið markaðshyggju og auðsöfnunar í álfunni.

Jónas Kristjánsson

DV