Friðarsinnar spilla friði.

Greinar

Um helgina lagði Alþýðubandalagið sitt af mörkum til að auka ófriðarlíkur í heiminum. Nokkur hundruð manns gengu frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur undir nafni friðar. Það er góð meining, en hefur þveröfug áhrif.

Sovézkir sendiráðsmenn tárast ekki, þegar þeir sjá Alþýðubandalagið og taglhnýtinga þess mynda friðarkeðju í miðborginni. Þeir senda ekki skeyti til Kremlar um, að bezt sé, að austur og vestur falli í friðarfaðma.

Þeir senda hins vegar skeyti um, að Íslendingar séu veikir fyrir eins og aðrir Vesturlandabúar. Þeir segja friðargönguna vera dæmi um, að Íslendinga skorti úthald í kalda stríðinu eins og aðra Vesturlandabúa.

Friðarhreyfingin á Vesturlöndum magnar ófriðarblikurnar með því að stappa stálinu í ráðamenn Sovétríkjanna. Hún hvetur þá til að taka aukna áhættu í útþenslustefnunni. Þannig er friðarhreyfingin friðarspillir í raun.

Sovétstjórnin hefur verið að færa sig upp á skaftið á undanförnum árum. Heima fyrir hefur harðstjórnin aukizt. Meðal annars er á geðveikrahælum mokað eiturlyfjum í friðarsinna og áhugamenn um efndir Helsinki-samningsins.

Sovétstjórnin hefur ráðizt með hervaldi inn í Afganistan og beitir fyrir sig leppríkjum í hernaði gegn íbúum Kampútseu, Angóla og Eþíópíu. Hún er að koma sér upp miklu safni meðaldrægra kjarnorkueldflauga gegn Vestur-Evrópu.

Á sínum tíma kom Khrústsjov í veg fyrir, að leyniþjónustumaðurinn Bería tæki öll völd í Sovétríkjunum. Nú er öldin önnur og grimmari, því að leyniþjónustumaðurinn Andropov hefur brotizt til valda í Kreml.

Andropov varð fyrst frægur fyrir að fara með hernaði gegn Ungverjum og láta myrða Nagy forsætisráðherra í tryggðum. Síðan varð hann aftur frægur fyrir að koma upp geðveikrahælum fyrir friðarsinna og aðra óvini ríkisins.

Ef rétt reynist, að búlgarska leyniþjónustan hafi staðið að baki tilraunarinnar til að myrða páfann í Róm, þá er hin sovézka ábyrg, því að hin búlgarska er lítið annað en útibú hennar, sérhæft til skítverka af slíku tagi.

Að undirlagi Andropovs hefur sovézka leyniþjónustan margfaldað umsvif sín á Vesturlöndum. Heimsfriðarráðið eitt kostar Kremlverja um 1.800 milljón krónur á ári. Er það þó aðeins brot af kaldastríðsrekstri Andropovs.

Umsvifin gengu svo fram af sósíalistanum Mitterrand Frakklandsforseta, að hann rak í einu vetfangi 47 sovézka leyniþjónustumenn úr landi. Honum mislíkaði, hversu opinskátt þeir stunduðu hina hvimleiðu iðju sína.

Leyniþjónustumennirnir, sem hafa tekið völdin í Kreml, stefna eindregnar en fyrirrennararnir að heimsyfirráðum. Í þeirra augum er friðarhreyfingin á Vesturlöndum sönnun þess, að fyrirstaðan sé að grotna niður.

Hinir nytsömu sakleysingjar, sem ganga frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, stuðla að þessari forlagatrú í austri. Þeir gera Andropov óbilgjarnari og djarfari. Þeir eru plága, sem stuðlar að ófriði í heiminum.

Mörg dæmi eru þess, að menn uppskeri ekki eins og þeir sá. Friðarhreyfingin á Íslandi er dæmi um það. Í stað þess að mynda friðarkeðju í miðborginni ætti hún að mynda friðarkeðju utan um sovézka sendiráðið eitt, utan um umboðsmenn Adrópovs.

Jónas Kristjánsson.

DV