Friðarstofnun á Íslandi

Greinar

Of snemmt er að gera því skóna, að alþjóðlegri friðarstofnun verði komið upp á Íslandi. Það er enn bara hugmynd, sem Steingrímur Hermannsson kom á framfæri við sovézka og bandaríska ráðamenn, er hann var forsætisráðherra. En henni hefur ekki verið illa tekið.

Frá okkar sjónarmiði er að flestu leyti gott að fá slíka stofnun hingað til lands. Auðvitað eru slæmar hliðar á því eins og raunar á öllum málum. Þær vega þó ekki þungt í samanburði við hinar góðu, auk þess sem unnt er að milda þær með því að vita af þeim fyrirfram.

Íslendingar eru yfirleitt andvígir sumu því tilstandi, er víða fylgir yfirstéttunum, sem ráða ferðinni í alþjóðlegum samskiptum. Hraðakstur bílalesta undir sírenuvæli er dæmi um fíflaskap, sem við munum ekki sætta okkur við sem fastan þátt í þjóðlífinu.

Unnt er að sætta sig við meiriháttar röskun af og til, ef við getum lagt eitthvað af mörkum til að gera fundi heimsleiðtoga árangursríka. En við venjulega fyrirmannafundi munum við frábiðja okkur fyrirgang á borð við þann, sem tengdist Nató-fundinum í sumar.

Hefðbundið mun vera, að ákveðinn hluti sendimanna heimsvelda starfi undir fölsku flaggi og sinni í raun njósnum. Við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af slíku og getum raunar litið svo á, að slík vinna hér á landi jafngildi í stórum dráttum sóun á starfskröftum.

Margt kemur á móti þessu, auk ánægju okkar af að hjálpa til við gagnlega vinnu í alþjóðlegum samskiptum. Alþjóðastofnun í Reykjavík mundi verða okkur eins konar gluggi að umheiminum, gera okkur heimsvanari og raunsærri í viðhorfum okkar til umhverfisins.

Einnig skiptir máli, að stofnunum af þessu tagi fylgja margvísleg störf, sem mörg hver hafa tilhneigingu til að vera hátekjustörf. Þau eru auk þess á sviðum, sem við þurfum að efla hjá okkur til að draga úr atvinnueinhæfni og verða fullgildir þáttakendur í nútímastörfum.

Loks má hafa í huga, að föst alþjóðastofnun treystir grundvöll ferðaþjónustunnar í landinu. Viðskipti hennar dreifast betur og jafnar yfir allt árið, svo að ekki þarf að miða fjárfestingu nærri eingöngu við afar stutta sumarvertíð. Jafnvægi er gott í þessu eins og ýmsu öðru.

Á þetta er bent hér til að hvetja ráðamenn til að taka á máli þessu af alvöru. Afleitt er, þegar Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra svarar út í hött og raunar með hálfgerðum skætingi, þegar hann er spurður um, hvað hann sé að gera til að fá hingað nýjan toppfund.

Ísland verður ekki tíðari eða fastur vettvangur alþjóðlegra samskipta, ef okkar menn vinna að því með hangandi hendi. Margir aðrir staðir koma til greina, svo sem Vínarborg og Helsinki, þar sem góð reynsla er af mikilvægum ráðstefnum og toppfundum af ýmsu tagi.

Forseti Íslands, ríkisstjórn og utanríkisþjónusta eiga að stunda samræmda og öfluga viðleitni að áþreifanlegu marki á þessu sviði. Hin umrædda friðarstofnun austurs og vesturs er einmitt slíkt markmið. Henni verður fyrr en síðar komið á fót, ­ einhvers staðar í heiminum.

Í friðarstofnun verður væntanlega rætt um samdrátt kjarnorkuvopna, bann við eiturvopnum og stjörnustríði, samdrátt hefðbundinna vopna, herlaus landamærabelti og friðun hafsins. Ef til vill líka um aðgerðir gegn ozon-eyðingu og gegn annarri viströskun jarðar.

Okkur Íslendingum væri mikill heiður og ánægja af, að starf af slíku tagi tengdist á stöðugan og varanlegan hátt nafni landsins eða höfuðborgar þess.

Jónas Kristjánsson

DV