Friðarverðlaunað ofbeldi

Greinar

Friðarverðlaunanefnd Nóbels var sér og norska stórþinginu til skammar, af því að hún greindi ekki á milli andartaks og eilífðar. Hún tók stutt tímabil sem mælikvarða á gildi stjórnmálamanns og situr uppi með að hafa veitt Gorbatsjov Sovétforseta verðlaunin.

Friðarverðlaunanefndir geta veitt móður Theresíu slík verðlaun, af því að hegðun hennar á morgun verður hin sama og hún var í gær. Hið sama gildir ekki um tækifærissinnaðan stjórnmálamann, sem stuðlar að friði annan daginn og efnir til ófriðar hinn næsta.

Friðarverðlaun hafa slæm áhrif á tækifærissinnaðan og samvizkulausan stjórnmálamann á borð við Gorbatsjov. Hann tekur verðlaunin sem staðfestingu þess, að um sinn hafi hann náð hámarksáhrifum á friðarkantinum og að nú sé lag til að sinna ófriðarmálum betur.

Gorbatsjov stuðlar að ófriði, þegar það hentar honum. Þegar hann telur sig þurfa að refsa Armeníumönnum fyrir óhlýðni við miðstjórnarvaldið, lætur hann Rauða herinn berjast með Azerum, þótt slík hlutdrægni magni ófrið á afar viðkvæmu svæði í Kákasusfjöllum.

Þegar Gorbatsjov telur henta sér að minna Litháa á, að þeir hafi lélega samningsaðstöðu gegn Moskvuvaldinu, sendir hann öryggissveitir innanríkisráðuneytisins, sem frægar eru af fyrra ofbeldi, til svokallaðra “eðlilegra” æfinga við þinghús Litháens í Vilníus.

Þegar Gorbatsjov forseti var búinn að gefa þjóðum Austur-Evrópu frelsi, veðjuðu vestrænir leiðtogar á hann sem mann vestursins í Sovétríkjunum. Þess vegna hefur Gorbatsjov sífellt verið hampað, þótt hann sé um þessar mundir einn helzti þröskuldur í vegi þjóða sinna.

Þegar Gorbatsjov er ofbeldismegin í tækifærisstefnu sinni, reyna vestrænir leiðtogar með Bandaríkjastjórn í broddi fylkingar að útskýra vandamálið í burtu. Þeir láta Gorbatsjov komast upp með að segjast ekki hafa vitað um ofbeldi öryggislögreglu og hersveita.

Augljóst er, að forseti ríkis hlýtur að halda mjög fast um tauma hers og lögreglu á svæðum, þar sem allt getur farið í bál og brand. Að halda því fram, að her og öryggislögreglu stjórni vondir karlar, sem Gorbatsjov ráði ekki við, er bull og raunar vísvitandi rangt.

Ímyndaðar hagkvæmnisástæður valda því, að vestrænir leiðtogar styðja ofbeldishneigðan Sovétforseta og reyna að gera lítið úr ofbeldi hans. Þeir ímynda sér, að hann haldi ríkinu saman. Þeir telja sig búa við meira öryggi en ella með Gorbatsjov í æðsta valdastóli.

Raunveruleikinn er allt annar. Gorbatsjov rekur nefnilega efnahagsstefnu, sem er meira að segja lakari en fyrri harðlínustefna, þannig að efnahagur Sovétríkjanna rústast nú hraðar en gerðist á tíma Brezhnevs flokksformanns. Gorbatsjov er skaðlegri en Brezhnev.

Möguleikar Austur-Evrópu á efnahagslegum framförum byggjast á, að þar hefur fyrra þjóðskipulagi og gömlum flokksbroddum verið fleygt út. Í Sovétríkjunum hefur hvorugt verið gert. Þar er verið að reyna að fara millileið undir stjórn hinna óhæfu flokksbrodda.

Millileið Gorbatsjovs er versta efnahagsleiðin. Hún mun soga til sín stjarnfræðilegar summur í vestrænni fjárhagsaðstoð, sem fer öll í súginn. Vestrænir peningar eiga betur heima í þeim hlutum Austur-Evrópu og Sovétríkjanna, sem kasta kerfinu og körlunum.

Gorbatsjov er maður ofbeldis og fortíðar. Að púkka upp á hann með friðarverðlaunum og vestrænu fé leiðir pólitíska og efnahagslega ógæfu yfir Sovétríkin.

Jónas Kristjánsson

DV