Friðhelg kamfýla

Greinar

Í vestrænu alvöruríki væri yfirdýralæknir rekinn fyrir vanrækslu í starfi, þegar komið hefur í ljós, að kamfýla er á fullu í kjúklingakjöti á fyrstu mánuðum þessa árs. Hann lofaði í fyrra að herða eftirlit með sóðabælum kjúklingaframleiðslunnar, en hefur ekki staðið við það.

Yfirdýralæknir starfar innan geira landbúnaðarráðuneytisins og hagar sér í samræmi við það grundvallarlögmál þess, að hagur og þægindi framleiðenda skuli jafnan vera tekinn fram yfir hag og heilsu neytenda. Nú sem fyrr vill hann ekki segja frá því, hverjir séu sóðarnir.

Eins og fyrri daginn hefur kamfýlan mælzt í kjúklingasláturhúsi Reykjagarðs á Hellu. Ráðamenn þess sverja af sér alla ábyrgð eins og fyrri daginn og vísa sök á ónafngreinda framleiðendur, sem að þessu sinni eru ekki aðeins í kjördæmi landbúnaðarráðherra.

Embættismenn á vegum umhverfisráðuneytisins deila ábyrgðinni á svínaríinu með embættismönnum á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Hollustuvernd ríkisins tók í vetur forustu í verndun kamfýlunnar með frægum málsverði, þar sem heilbrigðisnefndir átu kjúklinga.

Þetta var eins konar hópefli af hálfu Hollustuverndar í stíl við það frumkvæði brezka landbúnaðarráðherrans fyrir nokkrum árum að snæða brezka hamborgara opinberlega til að sýna fram á, að hann fengi ekki kúariðu. Enginn dó af kjúklingunum og allir voru kátir.

Hópefli Hollustuverndar og heilbrigðisnefnda hefur leitt til þess, að látið er duga að frysta kamfýluna og neytendur eru áminntir um að elda kjúklingana vel og lengi, svo að kamfýlan í þeim drepist. Þennan lága heilbrigðisstaðal hafa heilbrigðisnefndir samþykkt.

Þar á meðal er heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hefur slegið róttækt af fyrri kröfum sínum um heilbrigða kjúklinga og getur nú sætt sig við, að Reykvíkingar fái kamfýlusýkta kjúklinga, svo framarlega sem þeir kaupi þá frysta. Borgaryfirvöld eru orðin hluti af samsærinu.

Yfirdýralæknir og forstjóri Hollustuverndar hafa forustu fyrir aðgerðum, sem eiga að koma í veg fyrir óhæfilega iðni starfsmanna heilbrigðiseftirlits við að koma upp um kamfýlu og leka í fjölmiðla upplýsingum um sóðana, svo sem talið er hafa gerzt á Selfossi í fyrra.

Frá upphafi hefur kamfýlumálið borið öll einkenni hefðbundinnar gæzlu staðbundinna framleiðsluhagsmuna í Suðurlandskjördæmi. Dýralæknar eru verktakar hjá framleiðendum, sem þeir eiga að rannsaka, og heilbrigðisnefndarmenn eru sveitarstjórnarmenn svæðisins.

Framleiðendur, dýralæknar og heilbrigðisnefndarmenn eru saman í helzta kvöldverðarklúbbi svæðisins. Þeir voru í fyrra sammála um, að vandamálið væri ekki kamfýlan, heldur óviðurkvæmileg iðni tveggja heilbrigðiseftirlitsmanna á Selfossi við að upplýsa málið.

Dýralæknarnir njóta verndar yfirdýralæknis, heilbrigðisnefndarmenn njóta verndar forstjóra Hollustuverndar, framleiðendur njóta verndar sveitarstjórnarmanna og landbúnaðarráðherrans, sem er þingmaður kjördæmisins. Heilsa og hagsmunir neytenda komast hvergi að.

Síðan kamfýlu-skandallinn varð í fyrra hafa embættin árangurslaust reynt að finna leiðir til að minnka upplýsingaleka. DV getur þó upplýst, að Móakjúklingur hefur að þessu sinni bætzt í hóp sóðanna, sem í fyrra voru Ásmundarstaðir, Holtakjúklingur og Reykjagarður.

Munur Íslands og nágrannalandanna er sá, að þar er kamfýlan hundelt, en hér er hún svo friðhelg, að leyndarráðsmenn hennar halda embættum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV