Friðinum fylgt eftir

Greinar

Í Bosníu hefur verið að birta allra síðustu mánuði, þótt þar sé harður hávetur. Aðgerðir Vesturlanda hafa komið á friði í landinu og lagt drög að uppbyggingarstarfi. Stríðinu er lokið í bili, enda virðist Bandaríkjamönnum hafa tekizt að halda haustaki á Serbíuforseta.

Slobodan Milosevits hefur raunar hagað sér í nokkra mánuði á þann veg, að það líkist því helzt, að hann sé að reyna að bjarga sálu sinni eftir óvenjulega ógeðfelldan feril. Hann gerir nánast allt, sem honum er sagt að gera til að stöðva stríðsæðið, sem hann hóf sjálfur.

Í því skyni hefur hann fórnað tveimur helztu fjöldamorðingjum sínum, Radovan Karadzic, forseta Bosníu-Serba, og Ratko Mladic, yfirbrjálæðingi hers Bosníu-Serba. Þeir hafa nú hægt um sig, enda vofir yfir þeim handtaka og málaferli vegna hrikalegra stríðsglæpa.

Framganga Atlantshafsbandalagsins í Bosníu er núna allt önnur og betri en hún var, þegar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þóttist halda um stjórnvölinn. Hermenn bandalagsins láta ekki vaða yfir sig og yfirmenn þeirra þekkja reynsluna af kerfisbundnum lygum Serba.

Á allra síðustu vikum hefur Bandaríkjastjórn enn fremur gefið eftir fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag og lofað að láta af hendi upptökur af hlerunum, sem veita upplýsingar um skipulagið á stríðsglæpum Serba og Bosníu-Serba og aðild manna að skipulaginu.

Hingað til hafa vestrænir embættismenn, einkum brezkir, franskir og bandarískir, reynt að leggja stein í götu stríðsglæpadómstólsins með því að koma í veg fyrir, að hann fái fjármagn til starfa, og einnig með því að liggja á upplýsingum, sem hann þarf á að halda.

Þvergirðingsháttur vestrænna embættismanna stafar einkum af ótta þeirra við, að uppljóstranir stríðsglæpadómstólsins muni verða þungar í skauti ýmsum valdamiklum viðsemjendum þeirra af hálfu Serba og Bosníu-Serba og raunar einnig Króata, þótt í minna mæli sé.

En Bandaríkjastjórn komst að þeirri niðurstöðu, að það stríði gegn hagsmunum Bandaríkjanna vegna siðferðisstöðu þeirra í heiminum, ef hún taki þátt í þessu samsæri vestrænna embættismanna. Það yrði þyngra í skauti en skaðlegu áhrifin á sambúðina við Serba.

Þetta hefur meðal annars þau áhrif, að senn tekur herlið Atlantshafsbandalagsins völdin á þeim svæðum, þar sem vitað er, að Serbar og Bosníu-Serbar hafa falið lík tugþúsunda fanga, sem þeir myrtu í stríðinu. Það þarf að gerast, áður en sönnunargögnum verður spillt.

Þetta mun líklega einnig hafa þau áhrif, að herliðið fari að handtaka þá, sem ákærðir hafa verið fyrir stríðsglæpi og verða á vegi þeirra í Bosníu. Fréttamenn hafa tekið eftir, að franskir og brezkir foringjar láta sem ekkert sé, þótt slíkir sitji við næsta kaffihúsaborð.

Það verður að koma lögum yfir þessa snarbiluðu glæpamenn, svo að Vesturlönd nái að halda reisn sinni og senda þau skilaboð til gráu svæðanna í heiminum, að grundvallarlögmál vestræns samfélags séu enn í fullu gildi, þrátt fyrir fyrra klúður Sameinuðu þjóðanna.

Enn er of fljótt að spá, hvort Vesturlöndum tekst að komast með sæmd frá Bosníumálinu. Þróun síðustu vikna bendir til, að svo geti orðið. Þar ræður úrslitum, að Bandaríkin hafa lagt lóð sitt á vogarskálina. Á næstu vikum mun svo koma í ljós, hvort árangur næst.

Eftir allar hremmingarnar, sem Vesturlönd hafa sætt í Bosníu vegna heimsku og heigulsháttar fyrri umboðsmanna sinna, er nauðsynlegt að fylgja friðinum eftir.

Jónas Kristjánsson

DV