Senn fer að hrikta í stoðum Alþjóða skáksambandsins. Svo getur farið, að það klofni í tvennt. Annars vegar verður þá vestrænt samband, þar sem virtur verður drengskapur í leik, og hins vegar austrænt samband upp á sovézk býti.
Friðrik Ólafsson, forseti sambandsins, hefur staðið sig mjög vel við erfiðar aðstæður. Hann tók við af Euwe, sem var ágætur maður, en hafði því miður ekki reisn til að standa gegn fáránlegum yfirgangi umboðsmanna Sovétríkjanna.
Ástandið var orðið þannig, að haldið var einvígi um heimsmeistaratitilinn í skák upp á þau býti, að stjórnvöld annars keppandans héldu fjölskyldu hins í gíslingu. Slíkt gekk ekki í neinni alþjóðlegri keppnisgrein nema skák.
Auðvitað tekur nokkurn tíma að vinda ofan af slíku ástandi. Stjórnvöld í Sovétríkjunum hafa átt og munu áfram eiga mjög erfitt með að skilja, að þau verði að beygja sig undir leikreglur eins og aðrir aðilar alþjóðasamstarfs.
Friðrik hefur leikið fyrsta leiknum með því að fresta fyrirhuguðu einvígi um heimsmeistaratitilinn um mánuð. Hann telur réttilega, að fyrst verði að leysa fjölskyldu Kortsjnojs, konu hans og son, úr gíslingu sovétstjórnarinnar.
Engin efnisleg svör hafa borizt frá sovézkum yfirvöldum. Hætt er við, að þau líti í fyrstu á frestunina sem vindhögg, er Friðrik geti ekki staðið við. Þau muni bíða og sjá, hvort hann gefist ekki upp og falli í farveg Euwes.
Friðrik verður auðvitað að flýta sér hægt, því að hann þarf að njóta trausts sem flestra aðila alþjóða skáksambandsins. Hann hefur stuðning sinna heimamanna og sennilega einnig allra skáksambanda á Norðurlöndum.
Hins vegar er líklegt, að sumir aðilar alþjóðasambandsins hafi annað hvort lítinn áhuga á drengskap eða séu beinlínis hallir undir Sovétríkin. Friðrik má því eiga von á nokkrum andbyr, þegar hann leikur næsta leik.
Honum er manna ljósast, að upphefð hans er til lítils, ef skáklistin verður áfram eina keppnisgreinin á alþjóðlegum vettvangi, þar sem fantabrögð eru leyfð og ódrengir ráða ferðinni. Þá væri betra heima setið en af stað farið.
Ef fjölskyldu Kortsjnojs verður ekki leyft að flytjast til hans, neyðist Friðrik til að grípa til harðari úrræða, jafnvel þótt Alþjóða skáksambandið standi ekki óskipt að baki honum. Hann verður að ógilda heimsmeistaratitil Karpovs.
Í rauninni er enginn heimsmeistari í skák um þessar mundir. Karpov vann titilinn á ódrengskap sovétstjórnarinnar. Í engri annarri keppnisgrein á alþjóðlegum vettvangi væri þannig fenginn titill talinn gildur.
Hugsanlegt er, að fleiri leikir Friðriks leiði til þess, að sovétstjórnin reyni annað hvort að velta honum úr sessi eða segi sig úr sambandinu ásamt fylgiríkjum sínum. Hvoru tveggja verður Friðrik að taka með þolinmæði.
Ef honum tekst að neyða sovétstjórnina til að láta fjölskyldu Kortsjnojs lausa, hefur hann unnið mikinn siðferðissigur. Hann stendur þá upp úr sem maðurinn, er gat komið á heilbrigðum Ieikreglum í alþjóðlegri skák.
Ef honum tekst þetta ekki og hann fellur annað hvort sem forseti eða verður forseti annars helmings klofins sambands, hefur hann eigi að síður fullan sóma sem fremsti gæzlumaður drengskapar í þessari keppnisgrein.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið