Friðrik tókst það.

Greinar

Fyrst og fremst er að þakka Friðriki Ólafssyni, forseta Alþjóða skáksambandsins, að Bella og Igor Kortsjnoj hafa fengið fararleyfi úr Gúlaginu mikla eftir fimm ára tilraunir til að komast vestur fyrir tjald til Viktors Kortsjnoj.

Íslenzkir utanríkisráðherrar sem aðrir töluðu fyrir daufum eyrum steinrunninna fangabúðastjóra sovézka kerfisins, er hefur það að hornsteini, að einstaklingurinn skuli aldeilis fá að finna fyrir skorti á aðlögun að kerfinu.

Í málum sem þessum skiptir engu, þótt Sovétríkin séu aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafi þar á ofan undirritað sérstakt Helsinki-samkomulag, sem meðal annars telur ferðafrelsi til mannréttinda.

Úrslitum réði, að í fyrra frestaði Friðrik heimsmeistaraeinvígi Karpovs og Kortsjnojs á þeim forsendum, að fjölskyldumál Kortsjnojs stæðu í vegi þess, að fyllsta jafnræði ríkti í öllum atriðum milli keppanda.

Eftir hatrammt málastapp var Friðrik lofað persónulega, að fjölskyldumál Kortsjnojs skyldu verða leyst að vori. Og nú er að renna upp eitt dæmi þess, að kerfið getur staðið við loforð og er ekki alls varnað.

Á móti varð Friðrík að fórna meginreglunni, að keppni fari ekki fram við þær aðstæður, að fjölskyldu annars aðilans sé haldið í gíslingu af hálfu útgerðarmanna hins aðilans. Hann varð að láta halda marklaust einvígi í Merano.

Auk þess varð Friðrik að gefa fúlar yfirlýsingar, sem menn keppast nú við að gleyma, þegar menn telja fegnir dagana til endurfæðingar Bellu og Igors út úr Gúlaginu mikla. Þær áttu bara að gleðja illmennin á lokastigi samninganna.

Hitt stendur eftir, að frá siðferðislegu sjónarmiði er enginn heimsmeistari í skák um þessar mundir. Karpov hefur aldrei varið titil sinn á jafnréttisgrundvelli, heldur hefur hann orðið að láta halda fólki í gíslingu.

Slíkt framferði þekkist ekki í öðrum keppnisgreinum á alþjóðlegum vettvangi og er ljótur blettur á Alþjóða skáksambandinu. Sú niðurlæging blífur, þótt fjölskyldumál Kortsjnojs verði nú leyst eftir fimm ára baráttu.

Sjálfur hefur Karpov ekki hugmynd um eðli drengskapar í leik. Ofan á illa fengna tign hefur hann heima fyrir haft forustu í að kúga skákmenn undir kerfið. Hann er skákinni til skammar eins og heimsmeistarinn Aljekin á sínum tíma.

Ekki er auðvelt fyrir Friðrik að hafa valdamikla sovétmenn innanborðs í Alþjóða skáksambandinu. Ekki er hægt að ætlast til, að hann hreinsi andrúmsloftið á einu kjörtímabili. Sambandið var of djúpt sokkið, þegar hann tók við.

Töluverðar horfur eru á, að Friðrík fái annað kjörtímabil til að draga úr siðferðislegri eymd Alþjóða skáksambandsins. Frelsun Bellu og Igors verður ef til vill sú rós í hnappagatinu, er dugi honum til endurkjörs.

Kortsjnoj væri sennilega heimsmeistari, ef leikreglur hefðu verið virtar. Hans tími er liðinn, en nýir taka við. Ef næsti áskorandi má keppa á jafnréttisgrundvelli, fær skákin aftur raunverulegan heimsmeistara.

Slíkt væri jafnframt lokasigur Friðriks Ólafssonar í torsóttri viðleitni hans við að efla reisn Alþjóða skáksambandsins. Íslendingar vilja gjarna bera nokkurn kostnað af forsæti Friðriks og styðja hann með ráðum og dáð.

Jónas Kristjánsson.

DV