Friðsamt andlát

Greinar

Andláti Sovétríkjanna var formlega lýst á laugardaginn, þegar undirritaður var samningur Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands um nýtt ríkjabandalag hins slavneska kjarna Sovétríkjanna. Jafnframt voru sovézk lög felld úr gildi og sovézkar stofnanir lýstar ógildar.

Nýja ríkjasambandið minnir að nokkru á Evrópubandalagið, því að gert er ráð fyrir nánu samstarfi ríkjanna þriggja, svo sem samræmdri utanríkisstefnu, tollastefnu, samgöngustefnu og umhverfisstefnu, auk þess sem þau mynda með sér fríverzlunarsvæði.

Í samningi Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands er gert ráð fyrir sameiginlegri stjórn ríkjanna þriggja á kjarnorkuvopnum svæðisins og sameiginlegum aðgerðum þeirra til eyðingar þessara vopna. Þá heita ríkin þrjú í samningnum að virða landamæri hvert annars.

Þessi tvö atriði hljóta að skipta miklu, þegar umheimurinn metur afleiðingarnar af andláti Sovétríkjanna. Með helgun núverandi landamæra lýsa ríkin yfir, að ekki verði júgóslavneskt ástand milli þeirra. Rússland ætlar ekki að feta í fótspor útþensluhneigðrar Serbíu.

Mikill fjöldi Rússa býr utan landamæra Rússlands, einkum í Úkraínu, á sama hátt og mikill fjöldi Serba býr utan landamæra Serbíu, til dæmis í Króatíu. Sumir hafa óttazt, að þetta mundi leiða til spennu og átaka á landmærunum, einkum milli Rússlands og Úkraínu.

James Baker, hinn seinheppni utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gekk svo langt á laugardaginn, að hann varaði við, að ástandið í Sovétríkjunum gæti leitt til svipaðs blóðbaðs og í Júgóslavíu, með þeirri viðbót, að kjarnorkuvopnum kynni að verða beitt í borgarastríði.

Þetta voru kaldar kveðjur af hálfu Bandaríkjastjórnar, sem sýknt og heilagt hefur reynt að vernda sambandsstjórnina í Kreml á sama hátt og hún hefur reynt að vernda sambandsstjórn Júgóslavíu. Þetta er liður í bandarísku dálæti á sambandsríkjum yfirleitt.

Með sameiginlegri yfirstjórn kjarnorkuvopna og yfirlýsingunni um eyðingu þeirra eru slavnesku ríkin þrjú ennfremur að lýsa yfir friðsamlegum viðhorfum gagnvart umheiminum. Efnahagslegur stuðningur að vestan verður svo háður framgangi þessarar viljayfirlýsingar.

Það er því ekki ástæða til að senda Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi kaldar kveðjur í stíl Bakers. Miklu fremur er ástæða til að fagna því, að óhjákvæmilegt hrun Sovétríkjanna skyldi leiða til vitsmunalegrar niðurstöðu í efnahagsbandalagi ríkjanna þriggja.

Öll sex árin, sem Gorbatsjov hefur verið forustumaður Sovétríkjanna, hefur mátt ljóst vera, að hann hefði ekki burði til að halda heimsveldinu saman. Í leiðurum DV hefur í sex ár verið varað við oftrú á Gorbatsjov, enda hefur hann verið og er enn trúaður kommúnisti.

Við lýðræðislegar aðstæður er það nánast náttúrulögmál, að þjóðir vilja vera út af fyrir sig í eigin ríki, þótt þær vilji líka vera í ýmsum fjölþjóðasamtökum. Þegar lýðræðisþróun er komin vel á veg, er tilgangslaust að reyna að halda sambandsríkjum og heimsveldum á lífi.

Sundrun Sovétríkjanna hefur nú leitt til þeirrar niðurstöðu, sem heppilegust er, friðsams ríkjabandalags hins slavneska og evrópska kjarna heimsveldisins.

Jónas Kristjánsson

DV