Friður var með Eurovision

Greinar

Tyrkir gáfu Grikkjum tólf stig í Eurovision á laugardaginn. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir aldarfjórðungi. Og þjóðir Balkanskaga, sem var vígvöllur fyrir nokkrum árum, kusu hver söngvara annarrar á víxl, Serbar, Króatar og Bosníumenn. Eurovision er þannig mikið friðarafl í Evrópusögunni.

Engum kom á óvart, að þjóðir Norðurlanda voru límdar saman í Eurovision. Sjálfsagt eru kynþáttafordómar í bland við það svæðisbandalag, en þeir skýra ekki svæðisbundið samhengi í atkvæðum í suðausturhluta Evrópu. Miklu nær er að reyna að skýra sambandið á grundvelli svipaðra sjónarmiða í músík.

Gísli Marteinn getur haldið fram, að eins konar spilling sé í atkvæðum Norðurlandaþjóða í Eurovision, en verður að fara varlega í túlkun annarra svæða í Evrópu. Hann getur til dæmis ekki haldið fram neinu slíku, þegar aldagamlir óvinir fallast í faðma á Balkanskaga og við Eyjahaf í Eurovision.

Þegar svæðisbandalög um alþýðlega tónlist ryðja til hliðar hefðbundnum ágreiningi stjórnmálaafla er meira í húfi. Eins og þegar Grikkir kjósa Tyrki og Tyrkir kjósa Grikki, þegar Serbar kjósa Króata og Bosníumenn og Króatar kjósa Serba og Bosníumenn, þegar Bosníumenn kjósa Serba og Króata.

Á grundvelli hatursáróðurs stjórnmálamanna og herforingja, glæpakónga og sadista hafa þessar þjóðir háð grimmdarstríð á 20. öld, þar sem öllum alþjóðlegum siðalögmálum styrjalda hefur verið kastað fyrir borð. Allar þessar þjóðir hafa hagað sér eins og Bandaríkjamenn í nýlegum styrjöldum.

Fólkið í þessum löndum hefur gert uppreisn gegn herforingjum og stjórnmálamönnum, glæpakóngum og sadistum. Eurovision var vettvangur þessarar uppreisnar. Þegar fólk fékk að kjósa sjálft í síma, kom í ljós, að sterkar taugar eru milli nágranna, sem hafa verið látnir berast á banaspjótum.

Í Eurovision kom í ljós, að hatrið er ekki djúpt milli Tyrkja og Grikkja og að hatrið er ekki djúpt í þríhyrningi Serba, Króata og Bosníumanna. Það, sem við héldum, að væri hatur, var uppspennt hagsmunstreita yfirstétta, sem höfðu glæpsamlega hagsmuni af að etja fólki út í styrjaldir.

Eftir Eurovision 2005 skulum við fara varlegar en áður í að túlka ágreining milli nágrannaríkja sem djúpstætt hatur í þjóðarsálinni. Við höfum séð meinta óvini fallast í faðma.

DV