Friður verður torsóttur

Greinar

Fáum er harmur að falli harðstjórnar Talibana í Kabúl, sem gefur Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra færi á að endurvekja alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn í Afganistan. Með framferði sínu gegn mannréttindum og menningarsögu voru Talibanar orðnir óhelgir.

Sigur er í augsýn í Afganistan, þótt Norðurbandalagið hafi mætt meiri mótspyrnu í sókninni suður fyrir Kabúl. Talibanar höfðu ákveðið að verja ekki höfuðborgina, heldur halda til svæða þjóðflokks Pashtúna í suðurhluta landsins, þar sem þeir hafa síðan reynzt vera harðsóttari.

Norðurbandalagið mætir meiri mótspyrnu sunnan við Kabúl, því að þar eru þeir í óvinalandi. Þess vegna getur Bandaríkjunum reynzt torsótt að hafa hendur í hári Osama bin Laden og leiðtoga Talibana. Þau þurfa helzt að afla sér bardagamanna af þjóðflokki Pashtúna.

Engar vísbendingar eru um, að Bandaríkin treysti sér til að senda eigin landher til Afganistans á næstunni. Af því leiðir, að þau þurfa að reiða sig á leppa. Það var auðvelt norður í landi, þar sem herskáir minnihlutaþjóðflokkar höfðu varizt gegn Pashtúnum og Talibönum.

Þar sem örðugt hefur reynzt að finna Pashtúna, sem vilja berjast gegn Talibönum, munu loftárásir Bandaríkjanna halda áfram. Þar með heldur áfram sú ógeðfellda tegund stríðs, að menn varpa sprengjum að baki víglínunnar á almenna borgara, sem hafa ekkert til saka unnið.

Torvelt verður að koma á lögum og reglu í Afganistan, nema Sameinuðu þjóðirnar sendi friðargæzlu á vettvang. Annars yrðu Bandaríkin að gera það sjálf, sem þau vilja ekki. Það þýðir, að kröfur verða háværari um, að Bandaríkin greiði vanskilaskuldir sínar við samtökin.

Margir verða til að grafa undan viðleitni til að koma á fót veraldlegri stjórn í Afganistan. Fremst mun fara þar í flokki Pakistan, hinn uppvakti bandamaður Bandaríkjanna, þar sem börnin læra að hata Bandaríkin í skólum, sem kostaðir eru af konungsætt Sádi-Araba.

Flest bendir til, að friðurinn verði þyngri en stríðið. Bandaríkin hafa sett traust sitt á aldraðan og óvinsælan uppgjafakóng af þjóðflokki Pashtúna, en sá er ekki líklegur til stórræða. Indverjar og Rússar halda fram bandamönnum sínum meðal Norðurbandalagsins.

Þegar þessu snúna verki er lokið, Talibanar hafa verið hraktir frá völdum og friður kominn á í Afganistan, verður skammt á veg komin baráttan gegn hryðjuverkum trúarofstækismanna. Rætur þeirra liggja annars staðar, svo sem í ríkjum á borð við Sádi-Arabíu og Pakistan.

Hryðjuverkamenn heimsins koma ekki frá Afganistan, heldur Sádi-Arabíu og Pakistan, Egyptalandi og Alsír. Vesturlönd ná ekki árangri í að treysta öryggi sitt gegn hryðjuverkum trúarofstækis, nema þau ráðist að uppsprettum meinsins í eymd og ófrelsi íslamskra þjóða.

Vesturlönd þurfa að leggja aukna áherzlu á að selja fátækum þjóðum hugsjón lýðræðis, ekki bara frjálsar kosningar, heldur einnig aðskilnað ríkis og trúar, hinar ýmsu tegundir mannréttinda, svo og dreifingu valdsins og gegnsæi þess. Slíkt lýðræði er bezta hagstjórnartækið.

Vesturlönd þurfa að hætta að standa í vegi fyrir alþjóðlegu viðskiptafrelsi með tollfrjálsar landbúnaðarafurðir og vefnaðarvörur og hætta misnotkun sinni á Heimsviðskiptastofnuninni. Bandaríkin þurfa að hætta að standa í vegi fyrir sjálfstæðu ríki Palestínumanna.

Því meiri áherzla, sem lögð er á að eyða sjálfum jarðvegi hryðjuverkastefnunnar, þeim mun minni þörf er á lofthernaði, sem kemur niður á saklausu fólki.

Jónas Kristjánsson

DV