Gott er samkomulagið, sem tókst í nótt milli Efnahagsbandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna. Það er svipaðs eðlis og óformlega samkomulagið, sem náðist næstum því á fundum þessara sömu aðila í júní í sumar og Efnahagsbandalagið gat þá ekki staðið við.
Tollfrelsi á saltfiski og ferskum flökum næst hægar en gert var ráð fyrir í sumar. Niðurstaðan verður þó í stórum dráttum hin sama. Hún felur í sér, að Ísland þarf ekki að gera ráðstafanir til að beina útflutningi sínum í aðrar áttir en til hins auðuga Evrópumarkaðar.
Ef Ísland hefði verið skilið eftir á lokaspretti viðræðnanna um evrópskt efnahagssvæði, hefðum við orðið að beina útflutningi okkar meira til Bandaríkjamarkaðar, sem gefur minna af sér, og til Japansmarkaðar, sem hefði þurft að byggja upp með ærnum sölukostnaði.
Samkomulagið í nótt leiðir af sér, að Ísland verður hluti hins frjálsa Evrópumarkaðar. Landið mun dragast nær Evrópu í viðskiptum. Það er fjárhagslega hagkvæmt, því að Evrópa er markaðurinn, sem borgar mest fyrir flestar vörurnar, sem við höfum að bjóða.
Samt þurfum við ekki að veita erlendum aðilum meiri aðgang að atvinnulífi landsins en lög gera þegar ráð fyrir. Við þurfum ekki að veita erlendum aðilunum neinar umtalsverðar veiðiheimildir í auðlindalögsögu landsins. Við erum eins frjáls og við vorum áður.
Þetta er heilbrigður samningur í anda Fríverzlunarsamtakanna. Hann fjallar um frelsi í viðskiptum, en ekki um afsal landsréttinda. Hvað okkur snertir er hann víkkun á hugsuninni, sem felst í viðskiptasamningnum, er við höfðum áður gert beint við Evrópubandalagið.
Af því að þetta er fríverzlunarsamningur þurfum við ekki að hefja innanlandsdeilur um, hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Samningurinn veldur því, að við þurfum ekkert á slíkri aðild að halda, því að við höfum fríverzlunina, sem skiptir okkur máli.
Ef Ísland hefði verið skilið eftir á fundinum í nótt, hefðu óhjákvæmilega hafizt hér á landi heitar deilur milli þeirra, sem vildu beina aðild að Evrópubandalaginu og hinna, sem höfnuðu slíkri aðild. Nú þarf þjóðin ekki að kljúfa sig í herðar niður í slíkum deilum.
Flestar aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna líta á samninginn um evrópskt efnahagssvæði sem formála að fullri aðild sinni að Evrópubandalaginu. Við lítum hins vegar á hann sem endastöð. Hér á landi er enginn jarðvegur fyrir beina aðild að Evrópubandalaginu.
Þótt allar þjóðir Evrópu gangi um síðir í Evrópubandalagið, þurfum við ekki að gera það, úr því að við höfum náð fríverzlun. Við getum haldið áfram að rækta viðskiptafrelsi okkar til annarra átta, svo sem Bandaríkjanna og sérstaklega Japans, sem er framtíðarmarkaður.
Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningum um evrópskt efnahagssvæði, hafa staðið sig mjög vel. Þeir hafa ekki látið taka sig á taugum, þótt samningamenn Evrópubandalagsins hafi beitt þeirri tækni til hins ýtrasta og gjarna leikið sér á yztu nöf.
Þeir, sem hafa unnið fyrir Íslands hönd að samningunum, hafa metið rétt, að Evrópubandalagið mundi bila á síðustu stundu, þegar fulltrúar þess væru búnir að fullvissa sig um, að ekki væri unnt að kreista kúna meira. Íslendingar létu aldrei bugast í pókernum.
Aðild okkar að evrópsku efnahagssvæði felur fyrst og fremst í sér aukið tollfrelsi. Hún felur ekki í sér afsal landsréttinda. Þetta er fríverzlunarsigur.
Jónas Kristjánsson
DV