Frjálsari viðhorf

Greinar

Stuðningsmönnum frjálsari utanríkisviðskipta og aukinnar þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu efnahagssamstarfi hefur fjölgað mikið að undanförnu. Þeir eru loksins komnir í meirihluta. Þetta sýndu niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar DV, sem birtist í blaðinu í gær.

Hörðust hefur stefnubreyting þjóðarinnar orðið í viðhorfinu til Evrópusambandsins. Fyrir tveimur árum vildu rúm 25% hinna spurðu sækja um aðild að því, en nú eru þeir komnir upp í rúm 51% hinna spurðu. Þetta getur flokkazt sem hrein stökkbreyting í málinu.

Viðhorfsbreytingin stafar meðal annars af því, að Íslendingar standa nú skyndilega andspænis þeirri staðreynd, að samanburðarþjóðir okkar á Norðurlöndum eru um það bil að flytja sig yfir í Evrópusambandið. Þar á meðal eru Norðmenn, helztu keppinautar okkar í fiski.

Enn ákveðnari er stuðningur þjóðarinnar við frjálsari innflutning á búvöru. Rúm 66% hinna spurðu vildu auka þetta frelsi og tæp 34% voru á móti. Athyglisvert er, að meirihluti er fyrir þessari skoðun í öllum stjórnmálaflokkunum, meira að segja í Framsóknarflokknum.

Samanlagt sýna þessar kannanir, annars vegar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hins vegar um frjálsari innflutning búvöru, að þjóðin er komin langt fram úr pólitískum forustumönnum sínum í viðhorfi sínu til efnahags- og viðskiptahagsmuna sinna í umheiminum.Um leið fjölgar jafnt og þétt í þeim minnihluta, sem vill algert innflutningsfrelsi með búvöru. Fyrir fimm árum voru þeir 30% hinna spurðu, en eru nú komnir í 35% hinna spurðu. Þetta er töluvert meiri stuðningur en Evrópusambandið fékk hér fyrir tveimur árum.

Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa lítið sem ekkert gert til að fylgja í humátt á eftir þjóðinni á þessum mikilvægu sviðum. Forsætisráðherra hefur nýlega ítrekað hvað eftir annað, að umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.

Þessi íhaldssama skoðun var staðfest á Alþingi í umræðum í fyrradag. Stjórnarandstaðan er meira eða minna sammála ríkisstjórninni á þessu sviði. Gerð var hörð hríð að utanríkisráðherra, sem hélt fram, að tímabært væri orðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Athyglisvert er, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka virkan þátt í að mála Alþingi út í horn í viðhorfinu til Evrópusambandsins, þótt mikill meirihluti stuðningsmanna flokksins hafi opnari viðhorf til umheimsins. Þetta skarpa misræmi kann að hefna sín á flokknum.

Enn skýrari drættir eru í misræminu í afstöðu þjóðar og þings til frjálsari innflutnings búvöru. Á nákvæmlega sama tíma og þjóðin vill frjálsari innflutning, hvar í stjórnmálaflokki sem hún stendur, eru þingmenn hennar algerlega á öndverðum meiði eins og verkin sýna.

Atkvæðamikill þingmaður reiknaði nýlega, að 50 þingmenn af 63 væru á móti frjálsari innflutningi búvöru. Þetta þýðir, að skoðun, sem hefur 66% fylgi meðal landsmanna, hefur ekki nema 21% fylgi á Alþingi, þar sem afturhaldið hefur gengið berserksgang að undanförnu.

Tilraunir Alþingis til að þrengja sem mest að innflutningi búvöru sýna, að þingmenn telja sér brýnna að gæta afmarkaðra sérhagsmuna, sem þeir telja þunga á metunum, heldur en að vernda almannahagsmuni eins og þeir líta út frá sjónarmiði meirihluta þjóðarinnar.

Samt er ástæða til að vona, að smám saman muni hinar öru breytingar á viðhorfi þjóðarinnar á þessum sviðum fara að endurspeglast í viðhorfi Alþingis.

Jónas Kristjánsson

DV