Frjósöm og langlíf

Greinar

DeCode Genetics hefur náð þeim merka áfanga, að sérfræðileg tímarit eru farin að birta greinar starfsmanna. Nature Genetics hefur birt grein um víxlun erfðavísa á litningum Evrópubúa, þar á meðal Íslendinga. Af viðbrögðum erlendis má ráða, að þessi grein þyki fela í sér merkilega uppgötvun.

Birting í sérfræðiriti er annað en að kalla á íslenzka blaðamenn og segja þeim, að deCode hafi unnið vísindalegt afrek. Sérfræðiritin bera greinar undir nefndir sérfræðinga, sem meta, hvort vísindi og röksemdir að baki greinanna séu í lagi, og gera oftast tillögur um endurbætur á greinunum.

Þannig hafa greinar, sem birtast í þekktum sérfræðiritum meira vægi en greinar eða fréttatilkynningar, sem fást birtar athugasemdalaust. Því þrengri, sem síur ritsins eru, þeim mun hærra er ritið metið í sérfræðiheiminum. Loflegar greinar í fjölmiðlum Íslands hafa vægið núll á þessum skala.

Hingað til hefur deCode nokkrum sinnum leikið þann leik að hóa saman blaðamönnum og tjá þeim, að merkileg uppgötvun hafi verið gerð í fyrirtækinu. Síðan höfum við séð þetta, heyrt eða lesið í fjölmiðlum og yppt öxlum, því að slík vísindi hafa ekkert vægi. Nú er öldin orðin önnur og betri.

Umrædd rannsókn deCode bendir til, að ákveðin röskun hafi orðið á röð erfðavísa á 17. litningi fyrir þremur milljónum ára, sem hlýtur að teljast hafa verið í árdaga mannkyns. Þegar á því frumstigi hefur orðið stökkbreyting í erfðum Evrópubúa, en að litlu leyti í Afríku og alls ekki í Asíu.

Einn af hverjum fimm Evrópubúum og þar á meðal einn af hverjum fimm Íslendingum býr við þessa röskun á röð erfðavísa á 17. litningi, sem fer saman við meiri barneignir kvenna og meira langlífi fólks. Röskunin virðist semsagt leiða til aukinna barneigna og aukins langlífis fólks.

Þetta felur raunar í sér ókeypis hádegisverðinn, sem ein tegund hagfræði segir ekki vera til. Hingað til hefur verið talið, að annað hvort erfist aukin frjósemi til að vega á móti miklu skammlífi, eða aukið langlífi erfist til að bæta upp litla frjósemi. Þarna hafa menn kökuna og éta hana.

Miðað við mikla þjóðflutninga í heiminum í þrjár milljónir ára, kemur óneitanlega ó óvart, að svona mikill munur sé á Evrópu og Asíu, sem liggja saman. Einnig kemur á óvart, að mannkynið var talið runnið frá einum milljón ára gömlum einstaklingi, en röskunin er þriggja milljón ára gömul.

Þannig virka vísindin. Gerðar eru uppgötvanir, sem raska fyrra samhengi. Þá setjast menn niður við að reyna að finna skýringar með frekari tilraunum. DeCode tekur þátt í þessu.

Jónas Kristjánsson

DV