Fróðastaðavað

Frá Reykholti um Skáneyjarbungu og Fróðastaðavað að Síðumúla í Hvítársíðu.

Ég veit ekki, hvort þetta vað hefur verið nýlega riðið.

Sennilega sama vað og kallað er Steinsvað í Sturlungu. Vaðið þótti nokkuð djúpreitt, en fá slys urðu þar. Guðmundur góði biskup vígði vaðið. Áður sagði hann: “Stundin er komin, en manninn vantar.” Í sömu andrá kom maður ríðandi hinum megin árinnar. Hann hleypti hesti sínum á bólakaf og drukknaði. Eftir að Guðmundur góði vígði vaðið hafa engir drukknað þar. Vigdís Jónsdóttir í Deildartungu var þó hætt komin þar kringum 1860. Hún var á ferð ásamt fleira fólki og losnaði frá hesti sínum úti í miðri á. Loft komst í pils hennar og flaut hún niður ána. Einn samferðamaður hennar fór fyrir hana neðar í ánni greip hana í straumiðunni og hífði hana upp á hest sinn. Hún var þá meðvitundarlaus.

Förum frá Reykholti ofan byggðar norðvestur eftir Grjótagötu um eyðibýlið Grímsstaði að bænum Skáney og þaðan til norðurs vestan við Skáneyjarbungu og áfram norður í nesið sunnan Hvítár. Þar er Fróðastaðavað, andspænis Fróðastöðum í Hvítársíðu. Norðan vaðsins er stutt leið frá Fróðastöðum vestur í Síðumúla.

7,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Skáneyjarbunga, Húsafell, Hálsaleið, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason