Fróðlegt sukk

Greinar

Bönd Landsbankamálsins hafa borizt að bankaráðinu síðan lögmaður á þess vegum hvítþvoði bankastjórana og taldi eðlilegt að milda þeim starfslokin með fullum launum og fríðindum í átta mánuði, það er tuttugu milljóna króna verðlaunaveitingu af hálfu bankans.

Svo margir aðilar eru orðnir flæktir í Landsbankamálið, að nauðsynlegt er, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að skilgreina flækjuna. Slíkar nefndir þykja sjálfsagðar í lýðræðisríkjum beggja vegna Atlantshafsins, þótt hér telji skelfdir ráðherrar þær ógnun við lýðræðið.

Alls engar málefnaforsendur eru að baki æsingi forsætis- og utanríkisráðherra á Alþingi vegna tillagna um rannsóknarnefnd. Í nágrannalöndum okkar eru slíkar nefndir taldar efla lýðræði með því að styrkja eftirlitshlutverk þjóðþingsins, sem hér á landi er afar veikt.

Ekki bætir úr skák, að eftirlit af hálfu Ríkisendurskoðunar hefur reynzt takmarkað. Komið hefur í ljós, að Ríkisendurskoðandi er einn af strákunum og hefur verið önnum kafinn við að útvega sér sjálfum einkatekjur hjá fyrirtækjum, sem eru undir eftirliti stofnunar hans.

Laxavandræði hafa leynzt víðar í ríkisbönkunum og rangar upplýsingar víðar verið gefnar. Búnaðarbankinn er að minnsta kosti að nokkru leyti í sömu súpu og Landsbankinn, sem kemur á óvart, því hingað til hefur hann verið talinn betur og hóflegar rekinn banki.

Rannsóknarnefnd Alþingis gæti meðal annars reynt að finna, hve víðtæk sé spilling, sem felst annars vegar í óhóflegri sjálftöku stjórnenda á fríðindum sér til handa og í röngum upplýsingum þeirra um málin, þegar þeir eru orðnir hræddir um, að böndin berist að sér.

Lindarmálið hefur leitt í ljós, að sumir ráðherrar vissu um það í smáatriðum fyrir nokkrum árum, en bankaráðherrann vissi svo lítið á sama tíma, að hann svaraði fyrirspurn á Alþingi á þann veg, að ætla mætti að ekkert sérstakt hefði verið athugavert við það fyrirtæki.

Núverandi bankaráðherra virtist ekki vita um sukkið í Lind, þegar hann var spurður um það á Alþingi. Hann virtist ekki heldur vita um laxasukk Landsbankans, þótt hann hefði verið í laxveiði með einum bankastjóranum á kostnað bankans. Hann virðist meðvitundarlaus.

Rannsóknarnefnd Alþingis gæti meðal annars reynt að finna, hve mikið sé um, að gælustrákar á vegum stjórnmálaflokka séu að sukka með fé almennings í skjóli meðvitundarleysis og hvort núverandi bankaráðherra sé starfhæfur, ef hann er árum saman meðvitundarlaus.

Í Landsbanka- og Lindarmálum hefur farið mikið fyrir meðvitundarleysi ráðamanna. Fyrrverandi formaður banakaráðs Landsbankans reyndist hafa verið meðvitundarlaus á vikulegum fundum í sjö ár með bankastjórununum, rétt eins og hann væri bankaráðherra.

Öll málin, sem drepið hefur verið á hér að ofan, hverfa í skuggann fyrir því almenna vandamáli, að opinberir bankar og sjóðir hafa á þessum áratug tapað tugum milljarða króna af almannafé í útlánasukki, meðal annars til gæludýra á vegum stjórnmálaflokka.

Samanlagt eru mál þessi þannig vaxin, að linur ríkisendurskoðandi kemst hæglega að raun um, að farið hafi verið eftir bókhaldslögum og ríkissaksóknari kemst hæglega að raun um, að engin lög hafi verið brotin. Þess vegna þarf Alþingi að skipa rannsóknarnefnd.

Nefndin ætti að reyna að finna, hvernig sukk og spilling gátu þrifizt í bákninu og hvernig koma megi í veg fyrir, að slíkt endurtaki sig í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV