Matthew McAllester, stríðsfréttaritari Miami Herald í Írak, er ekki sammála Halldóri Ásgrímssyni, stríðsmálaráðherra Íslands, um ástandið í landinu. McAllester þarf líka sjálfur að lifa þar. Hann lýsti í grein í blaðinu á mánudaginn , hvernig aðstæður hafa hríðversnað síðustu mánuðina.
Fyrir ári gat McAllester ekið til Falluja og skýrt frá átökum, talað við reiða borgara, fengið sér hádegismat á þekktu veitingahúsi og ekið síðan aftur til Bagdað. Núna dettur honum ekki í hug að reyna þetta. Hann segir í blaðinu, að slíkt mundi jafngilda tilraun til sjálfsvígs.
Um áramótin bjó McAllester úti í bæ í íbúð með öðrum fréttamanni. Í apríl fluttu þeir í varið hótel, því að blaðamenn töldu ekki lengur öruggt að búa úti í bæ. Nú er farið að ráðast á hótelin líka. Sprengjuárás var gerð á Ishtar Sheraton hótelið í miðborginni á fimmtudaginn var.
Fréttamaðurinn segist bara fara úr húsi, þegar brýn nauðsyn krefji. Hann segir, að það sé hættulegt að vera úti á götu í Bagdað. Hann segir, að innfæddir hjálparmenn blaðamanna, bílstjórar og túlkar, segi ekki fjölskyldum sínum og vinum frá því, hvar þeir starfi. Þeir óttist um öryggi sitt.
McAllester er hættur að semja um að hitta fólk á tilgreindum stöðum, af ótta við, að upplýsingar um stað og stund leki til hryðjuverkamanna. Hann fer inn í bíl við hótelið, ekur á stað, sem hann telur líklegan, hleypur þar inn í húsið og vonast til, að viðmælandi hans sé viðstaddur á þeim tíma.
Fréttamaðurinn getur ekki lengur heimsótt vini sína meðal heimamanna. Hann óttast, að samneyti þeirra við útlending geti leitt til hefndaraðgerða þeirra, sem hata allt, sem útlent er, jafnvel blaðamenn. Hann segir, að það sé orðið næstum ógerlegt að stunda blaðamennsku í þessu ástandi.
Það er mat McAllester, að ástand öryggismála í Írak sé verra en það var í Sómalíu á sínum tíma og sé farið að líkjast því, sem er í Tsjetsjeníu, þar sem hvorki blaðamenn né starfsmenn hjálparstofnana þora að vera. Hann segir, að sér líði eins og froski í potti, sem sé á hægri leið í suðu.
Halldór Ásgrímsson talar eins og fífl um ástandið í Írak, þegar hann segir allt með kyrrum kjörum í 70 héruðum af 75 alls. Hann móðgar um leið alla þá fréttamenn og starfsmenn hjálparstofnana, sem eru á staðnum og vita betur. Halldór er bara þræll Bandaríkjastjórnar og lepur upp úr henni lygina.
Með stuðningi Halldórs við stríðið og hernámið ber hann sjálfur ábyrgð á hryðjuverkum hersins, morðum á yfir 10000 óbreyttum borgurum. Ekki bað hann þig eða mig um leyfi.
Jónas Kristjánsson
DV