Nýja fjárlagafrumvarpið hefur einn kost. Hann felst ekki í innihaldi þess. Það er óþarflega mikið og leiðir til allt of hárra niðurstöðutalna þess. Samkvæmt frumvarpinu er ríkissjóði einum ætluð rúm fjárráð í landinu, auðvitað á kostnað heimila og atvinnuvega.
Kostur frumvarpsins er breytt ytra form. Það er nú skiljanlegra en fyrr. Skýringar og dæmi þess eru mun ítarlegri en áður hefur þekkzt. Það er eins og framsetningunni sé ætlað að auka skilning lesenda fremur en að hindra hann eins og tíðkaðist í fyrri frumvörpum.
Fyrstu merki þessa sáust raunar í síðasta frumvarpi. Þar var í greinargerð sagt frá, hvernig frumvarpið gæti litið út á nýjan hátt, ef farið væri eftir staðli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Síðan voru sett um þetta lög í fyrravor. Nýja frumvarpið er í töluverðu samræmi við þau.
Lánsfjáráætlun ríkisins er nú í fyrsta sinn hluti af greinargerð fjárlagafrumvarpsins, en ekki sérstakt plagg, sem birtist eftir dúk og disk. Samkliða frumvarpinu hafa verið lögð fram lánsfjárlagafrumvarp og þjóðhagsáætlun, en ekki skildir eftir opnir endar.
Bæði aðalfrumvarp fjárlaganna og viðbótarfrumvarp lánsfjárlaganna fá nú meðferð sömu þingnefndar, fjárveitinganefndar, og verða væntanlega afgreidd samhliða sem lög frá Alþingi fyrir jól. Þetta eru ólíkt vitrænni vinnubrögð en þau, sem hingað til hafa tíðkazt.
Hinn eini opni endi fjárhagsáætlana ríkisins, sem nú er eftir, felst í aukafjárveitingum ríkisstjórnarinnar án meðferðar og samþykkis Alþingis. Slíkar fjárveitingar hafa jafnan verið umtalsverður þáttur ríkisbúskaparins og raunar verið til umræðu að undanförnu.
Ein merkasta nýbreytni frumvarpsins er, að í greinargerð þess er í fyrsta sinn gerð rækileg grein fyrir öllum aukafjárveitingum þessa árs fram að 1. október. Þannig hefur fyrrverandi fjármálaráðherra að mestu svarað fyrirfram spurningum stjórnarandstöðunnar.
Athyglisvert er við þessa skrá, að 954 milljón króna aukafjárveitingar þessara níu mánaða eru ekkert einkamál Alberts Guðmundssonar. Hann hefur sjálfur úthlutað 5,4 milljónum af þessari summu. En að vísu vantar í myndina aukafjárveitingar frá fyrri hluta október.
Skráin sýnir, að helmingur aukaútgjaldanna stafar af kjarasamningum. Mest af hinum hlutanum er björgunaraðgerðir fyrir önnur ráðuneyti. Því miður stríðir sumt af þeim gegn afgreiðslunni, sem þær höfðu áður fengið í fjárveitinganefnd Alþingis og síðan Alþingis sjálfs.
Fleiri nýjungar fylgja frumvarpinu, þar á meðal yfirlit um allar skuldbindingar ríkissjóðs, þar á meðal ábyrgðir. Þá er töfluviðauki frumvarpsins ítarlegri og gagnlegri en nokkru sinni fyrr. Ennfremur er margvíslegur samanburður í töflum, sem víða fylgja skýringum frumvarpsins.
Ekki er frumvarpið þó enn orðið alveg heiðskírt. Þrátt fyrir staðal Alþjóða gjaldeyrissjóðs hafa niðurgreiðslur landbúnaðarafurða ekki enn verið fluttar til viðkomandi ráðuneytis. Og 149 milljón króna gjöf til Lífeyrissjóðs bænda er falin hjá samtals þremur ráðuneytum.
Slíkir annmarkar eru þó tiltölulega fáir. Að mestu leyti hefur verið reynt að auðvelda skilning fremur en að torvelda hann, létta samanburð fremur en að hindra hann, loka endum í stað þess að hafa þá opna. Að formi til er þetta bezta fjárlagafrumvarp í manna minnum.
Jónas Kristjánsson.
DV