Fjölmiðlafrumvarpið og greinargerð þess svara ekki þessum tveimur mikilvægu spurningum: Hvers vegna þarf að setja meira íþyngjandi lög um einkafjölmiðla en um önnur fyrirtæki í landinu? Hvers vegna þarf að setja meira íþyngjandi lög um einkafjölmiðlana í landinu en um ríkisfjölmiðlana?
Höfundar frumvarpsins geta ekki svarað, hvers vegna ekki þarf reglu um fjórðungs hámarkseignarhald eins aðila að fjölmiðlum ríkisins og hvers vegna ekki þarf slíkt ákvæði um tryggingafélög, olíufélög, flugfélög og banka, sem hafa náð þriðjungs hlutdeild af viðskiptum á sínum markaði.
Fjölmiðlafrumvarpið er auðvitað pólitísk sátt um rugl. Það fullnægir ekki landsfeðrum, sem vildu hefna sín á fjölmiðlum fyrir að sýna ekki næga virðingu. Það fullnægir ekki heldur þeim, sem telja að sömu lög eigi að gilda um alla aðila, jafnt um fjölmiðla sem önnur fyrirtæki og ríkisfyrirtæki.
Með fjölmiðlafrumvarpinu er stjórnarandstaðan meðsek í aðför stjórnvalda að einkareknum fjölmiðlum. Spilað hefur verið á dálæti stjórnarandstöðu á skipulagi að ofan, forsjárhyggju Stóra bróður. Hún gerðist aðili að sértækum takmörkunum, sem gilda bara um einkarekna fjölmiðla, en ekki um þjóðfélagið.
Mesti vandi fjölmiðlunar á Íslandi var ekki til afgreiðslu í ruglfrumvarpi hinnar pólitísku sáttar. Afskipti valdhafa eru mikil og óviðeigandi. Forsætisráðherra hefur án árangurs reynt að garga á ráðamenn einkafjölmiða. Og dæmin sýna, að vandi pólitískra afskipta er óheftur á ríkisfjölmiðlum
Ekki verður séð, að einkafjölmiðlar gangi pólitískra erinda eigenda eins og landsfeður vilja, að ríkisfjölmiðlar gangi erinda landsfeðra. Áhrif auglýsenda eru nokkur og eru því miður vaxandi, en þeir eru aðrir aðilar en eigendur og koma að fjölmiðlunum með allt öðrum hætti en eigendur þeirra.
Kostun efnis í fjölmiðlum er háll ís, sem kom til sögunnar með ljósvakamiðlum. Einnig er illt, að heil tímarit á borð við Lifun Morgunblaðsins og heilir sjónvarpsþættir séu reknir að hætti hóruhúsa. Fjölmiðlar eiga að taka á þessu með siðareglum, enda gerir fjölmiðlafrumvarpið það ekki.
New York Times baðst fyrir viku afsökunar á að hafa samið við Columbia-háskóla um forgang að yfirlýsingu skólans gegn því að ekki yrði talað við aðra málsaðila af sama tilefni. Þetta er vandi kranablaðamennsku, sem tröllríður öllum íslenzkum fjölmiðlum og er verkefni fyrir siðareglur.
Það gildir þó um kostun og kranablaðamennsku, að hvort tveggja er lítilvægari vandi fjölmiðla en afskipti valdhafa, sem lýsa sér meðal annars í fjölmiðlafrumvarpsruglinu.
Jónas Kristjánsson
DV