Fullvalda Færeyjar

Greinar

Kominn er þingmeirihluti í Færeyjum fyrir fullveldi eyjanna í konungssambandi við Danmörku á svipaðan hátt og varð á Íslandi árið 1918. Nýja landsstjórnin í Færeyjum er skipuð fulltrúum fullveldisflokkanna, sem unnu mikinn sigur í þingkosningum fyrir skömmu.

Nýja landsstjórnin stefnir að þjóðaratkvæðagreiðslu í Færeyjum innan skamms um fullveldi með konungssambandi og síðar að annarri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2000 um stjórnarskrá Færeyja. Óhjákvæmilegt er, að dönsk stjórnvöld fallist á þessa málsmeðferð.

Færeyingar eru að stíga erfitt skref en rétt. Fullveldið verður þeim ögrun eins og Íslendingum á sínum tíma. Það mun hafa í för með sér ýmsa erfiðleika, einkum í fjármálum. En það mun um leið framkalla aukna ábyrgðartilfinningu, einkum í meðferð fjármuna.

Veraldarsagan stefnir um þessar mundir eindregið í átt frá sambandsríkjum til þjóðríkja. Færeyingar bera öll einkenni þjóðar. Þeir hafa skýr landamæri gagnvart umheiminum; þeir tala sitt eigið mál, sem einnig er ritmál; og þeir eru meðvitaðir um sérstöðu sína sem þjóð.

Mikilvægasti þáttur fullveldisferilsins er að gera upp fjármálin við Danmörku. Nú fá Færeyjar sem svarar tíu milljörðum íslenzkra króna á ári frá Danmörku í beinan styrk. Þennan styrk þarf að afnema í áföngum, svo að viðbrigðin verði ekki hættuleg fullveldinu.

Enn fremur þarf að gera upp skuldastöðu landanna. Annars vegar skuldar færeyski landssjóðurinn Danmörku sem svarar sextíu milljörðum íslenzkra króna og hins vegar á landssjóðurinn inni skaðabætur frá ríkissjóði Danmerkur og Den Danske Bank.

Skaðabæturnar stafa af yfirtöku færeyska landssjóðsins á Færeyjabanka í kjölfar rangra upplýsinga frá Danmörku um stöðu bankans, sem hafði verið í eigu Den Danske Bank. Ekki má búast við, að skaðabæturnar vegi þungt á móti heildarskuldum landssjóðsins.

Að einhverju og ef til vill að töluverðu leyti kunna Færeyingar að geta höggvið í skuldirnar með samningum við olíurisa um leit að olíu á færeyska landgrunninu. Flest bendir til, að finna megi olíu á vinnanlegu dýpi undir hafsbotninum við Færeyjar.

Fjárhagslegir erfiðleikar Færeyja stafa að miklu leyti af of miklum aðgangi að dönskum peningum. Það minnir að sumu leyti á Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem hafði óheftan aðgang að ódýru fé og fór síðan á hausinn, þegar raunvextir komu til sögunnar.

Sjávarútvegurinn í Færeyjum hafði komizt upp á lag með að mjólka opinbera sjóði og kassa í skjóli sambandsins við Danmörku og orðið um leið ófær um að standa á eigin fótum. Þetta er nákvæmlega samkvæmt máltækinu, að sterk bein þurfi til að þola góða daga.

Færeysku vandamálin hafa verið ýkt mynd af íslenzkum vandamálum. Munurinn hefur verið sá, að hér hafa menn ekki haft aðgang að dönskum tugmilljörðum og þess vegna síður getað lifað lengi um efni fram. Samt geta Færeyingar lært af okkar mistökum.

Færeyingar eru enn fámennari þjóð en Íslendingar og munu eiga erfitt með að halda úti viðamiklu ríkisbákni. Velgengni fullveldis þeirra verður áreiðanlega háð því, hversu vel þeim tekst til að hafa hemil á umfangi verkefnanna, sem fullveldið leggur þeim á herðar.

Fullveldið verður ögrun, sem getur leyst svo mikla krafta úr læðingi, að svokölluð færeysk vandamál reynast ekki vera annað en hver önnur verkefni.

Jónas Kristjánsson

DV