Fundur fólksins.

Greinar

Yfirleitt eru menn sammála um, að hinn frægi fundur húsbyggjenda í Sigtúni á dögunum hafi verið tímabær og þarfur. Kröfurnar, sem settar voru fram, eru réttmætar og raunsæjar. Segja má, að ríkisstjórnin hafi brugðizt skjótt við og hafi góð áform á prjónunum.

En þessi atburður hefur á sér aðra og athyglisverða hlið. Með stuttum fyrirvara og takmörkuðum auglýsingum sjá rúmlega tvö þúsund manns ástæðu til að leggja leið sína á fund um húsnæðismál.

Til fundarins var boðað af ungum og tiltölulega óþekktum mönnum. Engin samtök eða skipulagðar fylkingar standa að baki þeim. Hér mættu ekki menn af skyldurækni við stjórnmálaflokk eða af áhuga á spennandi uppákomu. Hvorki þurfti trúða né bingóvinninga.

Það, sem dró tvö þúsund manns á þennan fund, var uppsöfnuð örvænting, langvarandi áhyggjur, sem sérhver fundarmanna hefur legið andvaka yfir um langt skeið.

Flestir þeirra hafa þreytt píslargöngu milli lánastofnana, eytt frítímum sínum við byggingastrit, hlustað á loforðarullur stjórnmálamanna og hlaðið upp skuldaböggum út yfir öll fjárráð.

Þeir hafa sumir háð sitt skuldastríð án samráðs við aðra, trúir þeirri landlægu skoðun, að hver sé sjálfum sér næstur, þegar kemur að íbúðakaupum og byggingavafstri.

Flestir þeirra eru af hinni ungu kynslóð, sem tekur verðbólguspákaupmennskuna í arf. Þeir fengu það heilræði í veganesti úr föðurhúsum, að skuldirnar borguðu sig; að verðbólgan mundi hjálpa þeim yfir þröskuldana.

Fundarmennirnir tvö þúsund eru í engu frábrugðnir foreldrum sínum og öðrum Íslendingum að trúa því, að eigið húsnæði væri hornsteinninn að velmegun þeirra og sjálfstæði, enda er enginn talinn maður með mönnum, nema eiga þak yfir höfuðið.

Þeir áttuðu sig bara ekki á þeirri staðreynd, að hin hefðbundna sjálfstæðisbarátta í húsnæðismálunum væri orðin að þrælataki skuldaklafans.

Hér var þetta fólk komið á fund hjá sjálfu sér, ef það mætti verða til þess, að eitthvað rofaði til, ef bjargirnar væru ekki allar bannaðar, þrátt fyrir allt. Þetta var þeirra eigin fundur, þeirra eigin fylking.

Einn stjórnmálamaður vogaði sér að kveðja sér hljóðs með flokkssamþykkt upp á vasann. Hann var samstundis púaður niður. Ekki vegna þess, að hann væri verri en aðrir stjórnmálamenn, heldur af hinu, að hann var ímynd og persónugervingur þeirra pólitíkusa, sem lofað hafa fundarmönnum og öðrum kjósendum gulli og grænum skógum án frekari efnda eða úrræða.

Í raun og veru skeyttu fundarmenn skapi sínu á þessum seinheppna þingmanni til þess eins að lýsa vanþóknun sinni á stjórnmálaflokkunum öllum.

Menn nenna nefnilega ekki lengur að hlusta á loforð. Fallegar flokkssamþykktir koma að litlu gagni, þegar heimilið er gjaldþrota og þolinmæðin er þrotin.

Fundurinn í Sigtúni er fyrsta, en sennilega ekki síðasta vísbendingin um, að almenningur taki fram fyrir hendurnar á stjórnmálasamtökunum og reiði til höggs í krafti sinnar eigin örvæntingar.

Hann leiðir tvennt í ljós: Annars vegar er verðbólgan að leggjast af fullum þunga á lífskjörin. Hins vegar hafa stjórnmálaflokkarnir enga vitneskju um hræringarnar í þjóðfélaginu.

Alvarlegri aðvörun er vandfundin.

Jónas Kristjánsson

DV