Fúsk og leikir.

Greinar

Þótt allir sögukennarar væru jafngóðir og Ólafur Hansson var á sínum tíma, mundu margir nemendur láta sig það litlu varða. Þeir mundu ekki einu sinni fylgjast með, þótt fúsk og leikir leystu sögukennslu af hólmi.

Grunnskólarnir eru fullir af fólki, sem er þar meira eða minna til geymslu, svo að það sé ekki fyrir á vinnumarkaði. Í sjö ár er reynt að kenna því að lesa, skrifa og reikna, stundum raunar með takmörkuðum árangri.

Vafasamt er, að sögukennsla eigi brýnt erindi við þá, sem ekki vilja hlusta. Þeir geta samt orðið þjóðlegir og nýtir borgarar. Ekkert þekkt samhengi hefur fundizt milli kunnáttu í sögu Íslands og trúar á landið.

Íslenzka skólakerfið hefur í vaxandi örvæntingu beint athygli sinni að þessum erfiða hópi og þá venjulega á kostnað hinna, sem eiga erindi í skóla. Skólakerfið er að verða skólabókardæmi um mikið erfiði og lítið erindi.

Í tæpa tvo áratugi hefur menntamálaráðuneytið reynt að færa kennslu í sögu Íslands í form, er henti þeim, sem enga sagnfræði vilja sjá eða heyra. Hefur þar verið fylgt formúlum frá Svisslendingi að nafni Piaget.

Fúsk og leikir, sem gera skólana óþolandi sæmilega vel greindu fólki, geta ekki breitt yfir þá staðreynd, að án fyrirhafnar næst enginn árangur í námi frekar en í starfi. Og margir hljóta alltaf að vera andvígir fyrirhöfn.

Sagnfræði kemst ekki af án hjálpar ártala og mannanafna. Hún er í eðli sínu saga atburðarásar. Hún er samhengi í tímans rás. Sem slík verður hún að gagni aðeins kennd sem samfelld heild, en ekki sem bútasaga með löngum eyðum.

Saga Íslands á ekki fremur en mannkynssaga eða landafræði heima í samkrulli, sem kallað er samfélagsfræði. Hún á ekki heima þar, jafnvel þótt menntamálaráðuneytið hafi í tæpa tvo áratugi stefnt að því, undir leið- sögn sérfræðinga.

Félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar hafa ekki atburðarás að hornsteini eins og sagnfræðin og ekki flatarmál eins og landafræðin. Sagnfræðin og landafræðin mega ekki hverfa inn í greinar, sem eru byggðar á öðrum grunni.

Í rauninni eru félagsfræði, sálarfræði og skyldar greinar að töluverðu leyti safn tízkuhugmynda, sem eru sífelldum breytingum háðar. Eigi að síður geta bæði sagnfræði og landafræði haft gagn af slíkum hugmyndum, ef þær yfirtaka ekki.

Atburðasaga hefur ætíð haft tilhneigingu til að verða yfirstéttarsaga, alveg eins og saga byggingarlistar hefur tilhneigingu til að verða saga kirkjubygginga. Um slík atriði eru heimildir auðvitað mestar og beztar.

Sagnfræði nútímans þarf að fylla myndina og bæta hana með sögu alþýðunnar og sögu kvenna, svo að dæmi séu nefnd. Hún á ekki að vera aðeins saga styrjalda og stjórnmála, heldur líka efnahags, vísinda, tækni, félagsmála og menningar.

Saga Íslands og mannkyns, svo og landafræði, eiga að vera sjálfstæðar greinar í skólakerfinu. Þær eiga að fá þar meiri tíma og meiri alvöru í stað fúsks og leikja samfélagsfræðinnar. Við þurfum að losna undan oki Piaget.

Sumir nemendur munu ekki hlusta. En greindir krakkar geta tekið við margfalt meiri sagnfræði en lærisveinar Piaget telja óhætt að láta í té. Hinir, sem engan áhuga hafa, munu, hvort sem kennslan er gamaldags eða nýmóðins, aldrei geta útskýrt, hver var Jón Sigurðsson.

Jónas Kristjánsson.

DV