Fylgið kvarnast.

Greinar

Ríkisstjórninni ætlar að endast kjörtímabilið til að komast í minnihluta í hugum kjósenda. Í skoðanakönnun DV í dag kemur fram, að fylgismenn hennar eru 55% og andstæðingar 45% þeirra, sem afstöðu hafa í málinu.

Þessar tölur eru marktækari en tölurnar um fylgi flokkanna, sem birtust á miðvikudaginn. 53% hinna spurðu gátu ekki eða vildu ekki taka afstöðu til flokkanna, en aðeins 25% höfðu ekki skoðun með eða móti ríkisstjórninni.

Þar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru tiltölulega fjölmennir í þeim hópi, sem ekki hefur gert upp hug sinn til flokkanna, má að öðru jöfnu búast við, að flokkakönnunin hafi lítillega vanmetið fylgi stjórnarflokkanna.

Hin tiltölulega góða staða ríkisstjórnarinnar endurspeglaðist einnig í skoðanakönnuninni um bráðabirgðalögin, sem birtist í DV á föstudaginn. Af þeim, sem skoðun höfðu, voru 63% fylgjandi lögunum og 37% andvígir.

Fylgi bráðabirgðalaganna hefur raunar aukizt síðan í október, þegar 54% studdu þau og 46% voru á móti. Þetta kemur ekki á óvart eftir útreiðina, sem stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins fékk á lokaspretti málsins.

En ríkisstjórnin má muna fífil sinn fegri, þrátt fyrir þessar jákvæðu tölur. Hún hóf göngu sína fyrir rúmlega þremur árum með nærri 90% stuðning og hefur mestallt tímabilið haft 60-70% fylgi í skoðanakönnunum.

Um þetta er ekki hægt að segja annað en, að ríkisstjórnin hafi verið vinsælli en hún á skilið. Verk hennar hafa ekki verið betri en ríkisstjórna áttunda áratugarins, en landsmenn hafa sýnt henni ótrúlega þolinmæði.

Þegar fylgi ríkisstjórnarinnar dettur nú úr 60% í 55%, er það greinileg afleiðing þess, að ráðherrar eru byrjaðir að leggja niður mannasiði og farnir að haga sér eins fíflalega og þeir gerðu í vinstri stjórninni árin 1978-1979.

Skeytin milli ráðherra Alþýðubandalags og Framsóknarflokks birtast daglega á forsíðum Þjóðviljans og Tímans. Og í forustugreinum taka þessi blöð hraustlega undir taugaveiklunarlegan áburð, ásakanir og dylgjur af ýmsu tagi.

Báðir flokkarnir eru komnir í kosningaham og kunna sér ekki hóf frekar en fyrri daginn. Hjörleifur og Alþýðubandalagið telja til dæmis enn, að sér verði það til framdráttar að saka samráðherra um landráð og auðhringaþjónkun.

Hjörleifur og Alþýðubandalagið verða auðvitað að fá að meta menningarstig væntanlegra kjósenda þess. En framkoma af þessu tagi fælir vitanlega kjósendur frá ríkisstjórninni og þarmeð Alþýðubandalaginu einnig.

Með frekara framhaldi hnífs-í-bak stefnu ráðherranna, með Hjörleif í broddi fylkingar, mun fylgið halda áfram að kvarnast. 55% fylgið verður senn komið niður í 50%. Spurningin er bara, hvort því marki verði náð fyrir kosningar.

Kjósendur ern nefnilega ekki eins vitlausir og margir stjórnmálamenn streitast enn við að halda. Margir kjósendur vilja, að ráðherrar séu ábyrgir, traustir og orðvarir, og hafa skömm á tilraunum til að búa til kosningastöðu.

Þess vegna ætti ríkisstjórnin að nota þessa síðustu daga meirihlutafylgisins til að koma sér að ábyrgum verkum, svo að eitthvað liggi eftir hana, sem geti mildað dóma manna um hana í náinni og fjarlægri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV