Þegar Dagblaðið var stofnað fyrir sléttum tuttugu árum, var fjölmiðlun frumstæðari en hún er núna. Prentuðu fjölmiðlarnir voru hver fyrir sig að mestu leyti í þjónustu eins stjórnmálaflokks og ljósvakamiðlarnir voru í þjónustu stjórnmálaflokkanna sameiginlega.
Dagblaðinu var í upphafi sett það markmið að þjónusta almenning í landinu. Það átti ekki að vera fyrir neina efnahagslega, menningarlega eða pólitíska yfirstétt. Og það átti ekki að verða varðhundur fyrir gróið valdakerfi í heild eða einstaka hluta þess.
Í fyrsta skipti í sögu íslenzkrar fjölmiðlunar var opnað upp á gátt fyrir alls konar sjónarmið utan úr bæ í einum og sama fjölmiðli. Lesendabréf urðu fleiri og fjölbreyttari en áður höfðu þekkzt og kjallaragreinar eftir utanflokkahöfunda urðu að áhrifamiklum þætti í þjóðlífinu.
Neytendasíða hélt innreið sína í fjölmiðlun. Þar var og er enn reynt að veita upplýsingar, sem létti almenningi lífsbaráttuna. Neytendasíðan varð frá upphafi eitt helzta einkennistákn Dagblaðsins. Það er því vel við hæfi, að slíkt efni verður nú senn aukið í þessu blaði.
Skoðanakannanir í fjölmiðlum komu til sögunnar með Dagblaðinu. Þar með hættu talsmenn stjórnmálaflokkanna að geta haldið fram röngum fullyrðingum um stöðu flokka sinna í almenningsálitinu. Fólk gat komizt að hinu sanna án aðstoðar af hálfu sjónhverfingamanna.
Dagblaðið og síðan Dagblaðið-Vísir hefur jafnan lagt mikla áherzlu á hversdagslegar upplýsingar, sem gætu komið fólki að gagni. Þessi hversdagslega þjónusta, sem sumum finnst sumpart vera sparðatíningur, skipar töluvert rými í blaðinu, svo sem verið hefur frá upphafi.
Margt af þessu, sem hér hefur verið rakið, hefur verið tekið upp í öðrum fjölmiðlum og það með ágætum árangri. Það er fyrst og fremst eðlilegt svar við nýrri samkeppni. Þannig hefur sérstaða Dagblaðsins-Vísis orðið heldur minni en sérstaða Dagblaðsins var fyrst.
Meginlínurnar í sérstöðu Dagblaðsins-Vísis eru þó enn skýrar í samanburði fjölmiðla. Blaðið er sem fyrr gefið út fyrir litla manninn, almenning í landinu. Það tekur ekki tillit til valdamanna og valdakerfisins, sem þeir hafa byggt upp, heldur gætir hagsmuna borgaranna.
Blaðið hefur öðrum þræði verið róttækt og frekt, þegar það hefur tekið upp mál, sem ráðamönnum hefur mislíkað. Hinum þræðinum hefur blaðið verið óhlutdrægt, ekki gert upp á milli stjórnmálaafla. Það hefur verið óhlutdrægt án þess að láta stjórnmál eiga sig.
Fréttir blaðsins úr heimi stjórnmálanna hafa verið fréttir, en ekki nýjustu sannanir fyrir stóra sannleikanum, sem einkenndu fjölmiðla í landinu áður en Dagblaðið kom til sögunnar. Blaðið hefur viljað stunda gagnrýna óhlutdrægni fremur en hlutlausa og daufa óhlutdrægni.
Blaðið hefur eflzt mikið á tveimur áratugum og getað búið í haginn fyrir framtíðina. Það á góðan húsakost og vandaðan tæknibúnað, sem er enn að batna á þessum dögum. Blaðið er í stakk búið til að takast á við nýjar aðstæður í breyttri og sumpart nýrri fjölmiðlun.
Mikið er um að vera á DV í tilefni 20 ára afmælis Dagblaðsins. Veizluhöld verða í Perlunni síðdegis á morgun, þangað sem öllum er boðið, er áhuga hafa. Um leið er verið að vinna að ýmsum breytingum á efni og útliti blaðsins, sem smám saman munu koma í ljós í haust.
Breytingarnar verða í þeim anda, sem upphaflega markaði blaðinu svipmót þess fyrir tveimur áratugum. Þær verða í þágu almennra lesenda, litla mannsins.
Jónas Kristjánsson
DV