Fyrirheitna landið brást

Greinar

Í forsetakosningunum í Nicaragua í síðustu viku kom í ljós athyglisverður munur á niðurstöðum skoðanakannana og kosninganna sjálfra. Þar munaði rúmlega 30%. Allar kannanir spáðu 16­24% meirihluta sandinista, en í raun fengu chamorristar 14% meirihluta.

Þetta er munur lýðræðisríkja og harðstjórnarríkja. Í lýðræðisríkjum er í skoðanakönnunum unnt að spá með 1­3% fráviki um niðurstöður kosninga, af því að hinir spurðu eru nokkurn veginn óhræddir við að láta álit sitt í ljós. Það þora menn ekki undir harðstjórn.

Í Vestur-Evrópu hefur margt hugsjónafólk ímyndað sér, að sandinistastjórn Daniels Ortega væri stjórn fólksins í Nicaragua. Áhugafólk um sósíalisma fyrirheitna landsins hefur ímyndað sér, að þar séu að rætast vonir, sem hafa brugðist annars staðar.

Arftakar þeirra, sem endur fyrir löngu fóru til Rússlands að grafa skurði í þágu alþýðunnar, fóru um tíma til Kúbu í norrænar sveitir skurðgrafara. Þegar hugsjónafólkið gat ekki lengur séð Castro í hillingum, varð Nicaragua fyrir valinu sem fyrirheitna landið.

Nú er hins vegar komið í ljós, að alþýðan í Nicaragua er svo hrædd við sandinista, að hún þorir ekki að segja álit sitt í skoðanakönnunum. Í kosningum, sem voru undir eftirliti 2000 útlendinga, gat alþýðan hins vegar veitt útrás innibyrgðu hatri sínu á sandinistum.

Daniel Ortega leyfði frjálsar kosningar í Nicaragua, af því að hann trúði niðurstöðum skoðanakannana, alveg eins og pólskir og ungverskir kommúnistar trúðu því, að þeir mundu sigra í frjálsum kosningum, sem þeir leyfðu í sínum löndum fyrr á þessum vetri.

Kommúnistar eru ekki einir um að falla á þeim misskilningi, að harðstjórnarríki geti notað félagsvísindatækni lýðræðisríkja. Harðstjórinn Augusto Pinochet í Chile trúði líka niðurstöðum skoðanakannana og leyfði kosningar, sem gerðu andstæðing hans að sigurvegara.

Komið hefur í ljós, að alþýða manna í Nicaragua leit ekki rauða og svarta hálsklúta sandinista sömu augum og trúgjarna hugsjónafólkið, sem kom frá Evrópu til að grafa skurði og klappa saman lófum. Alþýðan áttaði sig á sandinistum og afgreiddi þá eins og þeir áttu skilið.

Sandinistar höfðu komið á fót vopnuðum sveitum, sem voru farnar að minna á slíka einkaheri í öðrum löndum. Þeir höfðu þjóðnýtt atvinnulífið að mestu og komið upp 36.000% verðbólgu. Þeir höfðu stuðlað að sárafátækt og gert sjálfa sig að skömmtunarstjórum.

Sandinistar höfðu gert bandalag við þjóðskipulag í Austur-Evrópu, sem síðan hefur hrunið. Sovétstjórnin hefur lengi haldið þeim uppi fjárhagslega, en er nú dauðfegin að losna við þá. Gorbatsjov telur sennilega mátulegt, að chamorristar halli sér að Bandaríkjunum!

Athyglisvert er, að sandinistar höfðu margfalt meira fé til umráða í kosningabaráttunni en chamorristar. Þetta sáu 2000 útlendingar, sem höfðu eftirlit með henni. Það stoðar því lítið að halda fram, að bandarískir peningar hafi komið Violetu Chamorro að völdum.

Á næstu vikum kemur í ljós, hvort Ortega tekst að halda í skefjum sárreiðum fylgismönnum sínum í hernum og einkaher sandinista. Ennfremur, hvort Chamorro heldur til streitu afneitun sinni á Contra-skæruliðum, sem hafa valdið miklum vandræðum í landinu.

Síðar sést, hvað tekur við af Nicaragua sem fyrirheitna landið hjá evrópsku hugsjónafólki, þegar fokið er í flest skjól. Verður það Suður-Jemen? Eða Ísland?

Jónas Kristjánsson

DV