Efasemdarmenn um ágæti ferðaþjónustu ættu að líta í Hagtíðindi. Þar kemur fram, að ferðaþjónustan hafði 230 milljarða króna í tekjur árið 2009. Það er 15% af landsframleiðslunni. Að baki eru bara 5% mannaflans. Svo virðist því sem ferðastarfsfólk vinni fyrir kaupinu sínu. Ef ekki verður bankahrun úti í heimi, má búast við aukningu í ferðaþjónustu frá ári til árs. Jafnvel 10% aukningu á ári. Hún verður smám saman stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar í samanlögðum tekjum. Því er ekki allt fengið með risavaxinni skuldsetningu í orkuverum. Ódýrari og arðbærari eru ný atvinnutækifæri í ferðaþjónustunni.