Fyrrverandi heimsveldi

Greinar

Kínversk yfirvöld hafa ekki tekið mark á kröfu Bandaríkjastjórnar um aukin mannréttindi í Kína, þótt hótað hafi verið brottfalli svonefndra beztukjara kínverskra afurða í Bandaríkjunum. Þvert á móti hafa þau hert á mannréttindabrotum, sem stríða gegn alþjóðasáttmálum.

Ekki gagnaði Bandaríkjastjórn að senda Warren Christopher utanríkisráðherra til Kína. Kínversk yfirvöld svöruðu honum fullum hálsi og gerðu sérstakar ráðstafanir til að sýna fram á, að þau væru herrar í eigin húsi. Og þau njóta enn beztukjaraviðskipta í Bandaríkjunum.

Áður reyndi Kínastjórn að milda brot sín, þegar kom að endurnýjun ákvarðana um beztukjaraviðskipti, til þess að ónáða ekki bandarískt almenningsálit rétt á meðan. Nú fara þau í öfuga átt, af því að þau vita, að Bandaríkjastjórn er orðin fótaþurrka á alþjóðavettvangi.

Kínastjórn hefur ekki fengizt til að hjálpa við að fá stjórn Norður-Kóreu ofan af brotum sínum gegn samningi um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Og stjórn Norður-Kóreu er ekki hrædd við að meina eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna aðgang að kjarnorkuverum.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa síðan lagt grundvöll að tvöfaldaðri framleiðslu á plútóníum, sem er lykilefni í kjarnorkusprengjum. Þau hlæja bara að bandarískum hótunum um refsiaðgerðir í milliríkjaviðskiptum og hóta á móti að fara í stríð við Suður-Kóreu og Bandaríkin.

Í Sómalíu var sent á vettvang bandarískt herlið. Yfirmenn þess gáfu stórorðar yfirlýsingar um, að taka skyldi í lurginn á bófanum Aidid, sem valdið hafði almenningi ólýsanlegum hörmungum. Hótanir þeirra fóru út fyrir hefðbundið verksvið friðarsveita Sameinuðu þjóðanna.

Nú er bandaríska herliðið á flótta frá Sómalíu með rófuna milli fótanna, en bófinn Aidid stendur eftir með pálmann í höndunum. Hann vissi alltaf, að Bandaríkin eru ekki lengur neitt heimsveldi, af því að þau hafa ekki lengur neitt úthald til að standa við stóru orðin.

Flótti bandaríska herliðsins frá Sómalíu minnir á flótta þess frá Líbanon á sínum tíma. Þá var byrjað að koma í ljós, að Bandaríkjamenn þoldu ekki lengur að sjá blóð á vígvöllum sínum og gátu því ekki lengur staðið undir hlutverki heimsveldis á borði, aðeins í orði kveðnu.

Persaflóastríðið markaði síðan þáttaskil í hruni Bandaríkjanna sem heimsveldis, þótt fáir tækju þá eftir því og flestir ímynduðu sér raunar, að þau hafi unnið þar sigur. En stríðinu var hætt, þegar kom að návígi í Írak, af því að Bandaríkjaher þoldi ekki að sjá blóð.

Þess vegna situr Saddam Hussein í traustum sessi í Írak, alveg eins og Assad í Sýrlandi og Aidid í Sómalíu og Kim Il Sung í Norður-Kóreu. Þess vegna hefur bófinn Cédras á Haiti haft samningamenn Bandaríkjastjórnar að fíflum án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Cédras samdi raunar um að afhenda völdin á Haiti í hendur löglegum stjórnvöldum, en notaði samningatímann til að treysta stöðu bófaflokksins, sem stjórnar landinu með fáheyrðu ofbeldi. Hann veit, að Bandaríkjastjórn getur ekkert annað en kvartað og kveinað.

Þótt margir tækju ekki eftir raunverulegum ósigri Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu, komust stórglæpamenn heimsins ekki hjá því að sjá, að Bandaríkin og hernaðararmur þeirra í Atlantshafsbandalaginu hafa ekki þorað að svara útþenslustefnu Serba í Bosníu.

Ófarirnar í málum Kína, Norður-Kóreu, Sómalíu og Haiti eru bein afleiðing þess, að um allan heim eru valdamenn hættir að líta á Bandaríkin sem heimsveldi.

Jónas Kristjánsson

DV