Fyrstu skrefin fram á veg

Greinar

Ný stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málum upplýsingasamfélags nútímans er markverð af tveimur ástæðum. Annars vegar var kallaður fjöldi áhugamanna til verksins og hins vegar urðu niðurstöður vinnunnar töluvert aðrar en hefðbundið er í slíkum tilvikum.

Verkið var unnið á vegum Finns Ingólfssonar viðskiptaráðherra og formaður var Tómas Ingi Olrich alþingismaður. Fengnir voru um 20 manns úr þjóðlífinu til að skipa yfirnefnd. Rúmlega 100 manns skipuðu níu hópa, sem fjölluðu um nokkra helztu þætti málsins.

Niðurstaðan var ekki hin hefðbundna óskhyggja um ótakmörkuð fjárráð ríkisvaldsins með nýjum fjárfestingarsjóði og nýju skömmtunarkerfi að hornsteinum, heldur var reynt að finna, í hvernig andrúmslofti hin nýstárlega atvinnugrein gæti dafnað af eigin rammleik.

Þrjú forgangsverkefni af hálfu stjórnvalda koma skýrt fram í niðurstöðu þessarar ánægjulegu stefnumótunar ríkisstjórnarinnar. Eitt þeirra er á sviði menntamála, annað á sviði framkvæmda- og innkaupasýslu stjórnvalda og hið þriðja á sviði tölvusamgöngumála.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum í skólakerfinu. Þær eiga að stuðla að almennu tölvulæsi þjóðarinnar, svo og getu hennar til að vinna raunsætt úr upplýsingum og til að meta gagnsemi þeirra. Enn fremur eiga þær að stuðla að aukinni þekkingu á íslenzku og ensku.

Allir eru þættirnir jafnir að mikilvægi. Tölvulæsi er augljós forsenda og enskan veitir ein aðgang að umheimi tölvualdar. Jafnframt er minnt á, að um leið þurfa menn að fá þjálfun í að kunna að vinna úr upplýsingaflóði nútímans og að geta greint kjarnann frá hisminu.

Íslenzk tunga skipar sérstakan sess í stefnumörkuninni, enda er hún ein helzta forsenda þess, að sérstök þjóð býr í landinu. Margt hefur verið gert til að auka getu tungunnar til að taka upp ný hugtök, til dæmis í tölvufræðum, en efla þarf þá vinnu á nýjum sviðum.

Enn fremur má vænta þess, að sá ósiður leggist af, að menntaráðuneytið og Ríkiskaup láti kaupa skólatölvur, sem hvorki hafa íslenzkt stýrikerfi né helztu forrit á íslenzku, á sama tíma og önnur eru á boðstólum á íslenzku, jafngóð, jafnfjölbreytt og jafnódýr.

Í öðru lagi er í stefnumörkuninni gert ráð fyrir útboðsstefnu í hugbúnaðarkaupum ríkisins og öðrum viðskiptum þess á upplýsingasviðum, eins og á öðrum sviðum viðskiptalífsins. Aukin verði þátttaka hugbúnaðarfyrirtækja í þróunarverkefnum á vegum ríkisins.

Í þriðja lagi gerir hin nýja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar ráð fyrir, að flutningsgeta og flutningsöryggi samgönguæða fyrir tölvutækar upplýsingar verði í senn fullnægjandi og anni ört vaxandi notkun þeirra, bæði innanlands og milli landsins og annarra landa.

Lögð er áherzla á, að kostnaður almennings og fyrirtækja af gagnaflutningi verði í lágmarki. Með þessu er í rauninni verið að leggja áherzlu á notkun Internetsins og ódýran aðgang allra aðila að því. Það þýðir um leið afnám einokunar, svo og nokkra fjármögnun ríkisins.

Ríkið þarf að líta á þetta samgöngukerfi eins og vegi landsins. Það þarf að tryggja, að á hverjum tíma sé til bandvídd til að mæta viðbótarálagi, sem búizt er við á næstunni, þótt ekki séu enn komnir viðskiptavinir til að nýta hana. Annars verður sífellt umferðaröngþveiti.

Ef ríkisstjórnin stendur við þessa stefnu sína, getur þjóðin senn farið að stíga fyrstu og mikilvægustu skrefin í átt til upplýsingasamfélags framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV