Nyrzti hluti hverfisins er fyrst og fremst íbúðabyggð með litlum verzlunum og verkstæðum í bland, næsta upprunalegur að útliti. Víða eru þar tiltölulega beinir og breiðir skurðir með gangfærum bökkum. Syðsti hluti hverfisins er líkari öðrum hverfum Feneyja og einkennist af samgöngum milli brautarstöðvar og Rialto-brúar, bæði á Canal Grande og á tiltölulega greiðfærri gönguleið.
Í annarri gönguferð fórum við um suðausturhorn hverfisins til að skoða kirkjurnar San Giovanni Crisostomo og Santa Maria dei Miracoli, svo að við sleppum þeim hluta í þessari gönguferð.
Við hefjum ferðina við Fondamente Nuove bátastöðina á norðurströnd Feneyja. Þangað komumst við með almenningsbátum 23 og 52.