Gæðingakeppnin fer út í heim

Hestar

Sigurbjörn Bárðarson, formaður fræðslunefndar gæðingadómara Landssambands hestamannafélaga:

Tímamót urðu í sögu íslenzku gæðingakeppninnar í lok marz, þegar hingað komu þekktir alþjóðadómarar úr íslenzkum hestaíþróttum á þriggja daga námskeið í gæðingadómum og luku þar prófi íslenzkra gæðingadómara. Námskeið þetta á vegum LH og Alþjóðasambands íslenzka hestsins, FEIF, var svo vel heppnað, að við erum að undirbúa annað í haust, ef þátttaka fæst.

Það er töluverð upplifun fyrir erlenda íþróttadómara að kynnast íslenskum gæðingadómum, að sjá þann mikla frjálsleika og fas sem einkennir gæðingakeppnina samkvæmt Íslenskri hefð. Og hið einfalda form sem einkennir keppnina hentar flestum sem stunda hestamennsku, hvort heldur er til ánægju eða keppni.

Námskeiðið var afleiðing vakningar, sem hafin er meðal Íslandshestafólks í öðrum löndum, einkum á Norðurlöndum og í Þýzkalandi. Þar eru menn farnir að átta sig á, að hestinum fylgja aldagamlar reiðmennskuhefðir, sem eru hluti af sögu og tilvist íslenzka hestsins. Klúbbar eru farnir að halda mót í gæðingakeppni og hafa áhuga á að læra meira um hana og hafa leitað til höfuðstöðvar íslenska hestsins L.H um framhaldið.

Í uppsiglingu eru tvö stór gæðingamót í Þýzkalandi. Þar munu verða gæðingadómarar frá Íslandi, Sigurður Ævarsson og Ingibergur Árnason, auk sumra þeirra erlendu manna, sem nú hafa lokið prófi í gæðingadómum. Við væntum þess, að sama sagan verði erlendis og hér heima, að þessi tegund keppni höfði til hins almenna hestamanns og verði til að fjölga mótum.

Annað gildismat

Gæðingakeppni er ólík íþróttakeppni og hefur annað gildismat. Í gæðingakeppni er hesturinn í fyrirrúmi, en knapinn skipar annað sæti. Þetta á sér rætur aftur í öldum, þegar íslenzkir hestamenn hittust með gæðinga sína á eyrum og leirum og sérskipið dómnefnd fengin til að meta, hver átti bezta gæðinginn.

Smám saman hefur þessi íslenzka hefð fengið ákveðið mynztur, sem við sjáum til dæmis á landsmótum. Hjá LH hafa reglur um þetta fengið fast mót á síðustu tveimur árum. Allar reglur hafa verið endurskrifaðar, svo að nú hafa dómarar staðlaðar forskriftir að vinnubrögðum, sem eiga að stuðla að samræmi í dómum, þótt eðli gæðingakeppninnar sé frjálslegra en íþróttakeppninnar.

Gæðingakeppnin hefur þannig verið aðlöguð nútímanum og er tilbúin til útflutnings. Eigi að síður er hún enn hin sama gamla erfðavenja, sem öldum saman hefur verið hápunktur félagslífs hestamanna, þegar stoltir eigendur sýna hesta sína og bera saman við það bezta í héraðinu eða á landsvísu. Hún er sú keppni, sem hæfir íslenzka hestinum bezt.

Eðli gæðingakeppninnar er séríslenzkt. Það er gæðingur, sem er fasmikill og leggur undir sig mikla jörð á öllum gangi, sýnir ekki bara takt, heldur takt og samræmi í hreyfingum, og býður af sér ekki bara svipmót, heldur útgeislun hins frjálsborna. Í gæðingakeppni á sjálfið í hestinum að njóta sín.

Nýr markaður

Með gæðingakeppni í fjölmörgum löndum opnast nýr markaður fyrir íslenzka hesta, öðru vísi hesta en þá, sem taka þátt í íþróttakeppni. Markhópurinn fyrir þessa er ekki alveg sami og sá, sem hefur keypt íþróttahestana, og hefur burði til að verða miklu stærri, áður en upp er staðið.

Ég hef trú á, að smám saman komist aukinn hraði í þetta ferli og um síðir verði gæðingakeppni orðin að hornsteini hestamennskunnar um allan heim íslenzkra hesta. Við munum stuðla að þessu með því að þjálfa erlenda dómara og senda íslenzka dómara á gæðingamót í útlöndum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2004.