Gæfulaus ríkisfjármál

Greinar

Til marks um alvöruleysi fjárlaga má hafa það, að nú er komið í tízku að skera vegagerð niður á fjárlögum um áramót og þenja hana síðan út á miðju ári, þegar ákveðið er að reyna að auka atvinnu í þjóðfélaginu. Aukningin á miðju ári er meiri en niðurskurðurinn um áramót.

Það tekur því varla að ræða um fyrstu útgáfu fjárlagafrumvarps sem marktæka viðmiðun í þjóðmálaumræðunni. Fjárlagafrumvarp er bara aðdragandi að fjárlögum, sem ekki eru heldur marktæk, því að lánsfjárlög ríkisins taka við sumu af því, sem ekki rúmast á fjárlögum.

Lánsfjárlögin eru líka marklítil, því að síðan taka við þjóðarsáttir og aukafjárveitingar, sem breyta áherzluatriðum fjárlaga og lánsfjárlaga og snúa þeim jafnvel við, svo sem vegagerðardæmið sýnir. Þannig verða fjárlög og lánsfjárlög ekki einu sinni stefnumarkandi.

Eins og fjárlagafrumvarpið er byggt upp ætti það að fela í sér fimmtán milljarða halla. Með snyrtingum og heppilegri gleymsku er búin til lægri gervitala, sem er nokkrum krónum innan við tíu milljarða halla. Alþingi verður síðan kennt um aukinn halla í meðförum þess.

Megineinkenni frumvarpsins er, að það endurspeglar ekki raunveruleika líðandi stundar. Það felur í sér, að ríkisstjórnin treystir sé ekki í uppskurð á ríkisfjármálunum. Hún heldur bara áfram að krukka í nokkra liði, einkum þá sem varða velferð almennings, sömu liði og í fyrra.

Ríkisstjórnin laskar og leggur niður þær velferðarstofnanir, sem eru ódýrastar í rekstri, og lætur flytja fólk á dýrari stofnanir annars vegar og út á gaddinn hins vegar. Ekki er hægt að sjá neina heila brú í vali ríkisstjórnarinnar milli stofnana í þessari sláturtíð.

Ríkisstjórnin er orðin svo illa haldin af sýndarmennsku, að hún ætlar að kasta 64 milljónum króna á glæ heilsukorta til að geta haldið fram, að 235 milljón króna tekjur af 309 milljón króna heilsukortaskatti séu í rauninni ekki skattur. Þessi blekking hefur ekki tekizt.

Eyðslusemi ríkisstjórnarinnar á afmörkuðum sviðum og kæruleysi ráðherra í umgengni við biðlaun og mannaráðningar sýna, að það er bara stundum, sem kreppan er höfð í huga. Og áfram verða milljarðar, einn eða tveir á mánuði, látnir fjúka í veður og vind landbúnaðar.

Kreppan er ekki meiri en svo, að unnt væri að varðveita velferðarkerfi almennings, ef ríkisstjórnin hefði ekki meiri áhuga á að vernda gömul hagsmunakerfi. Niðurskurður heilsu- og öldrunarstofnana er skiptimynt í samanburði við kostnað af vernduðum hagsmunum.

Í leiðurum þessa blaðs hefur mörgum tugum sinnum verið bent á, hvernig skera megi brott hina vernduðu hagsmuni, án þess að það valdi hagsmunaaðilum meiri þjáningu en núverandi kerfi gerir, og hafa þannig ráð á að halda áfram uppi óbreyttri velferð almennings.

Fjárlagafrumvarpið er bara enn ein staðfesting á því, að ríkisstjórnin telur sig ekki geta tekið neitt mark á ráðleggingum af því tagi og kýs heldur að ana áfram út í ófæruna. Þetta ömurlega skjal er bara enn ein staðfesting á því, að ríkisstjórnin er ekki starfhæf.

Grátlegt er, að kringum ríkisstjórnina er fjölmenn hjörð hagfræðinga og annarra fræðinga, sem eiga að vita betur og gera það sumir, án þess að slíkrar hugljómunar sjái nokkurn marktækan stað í fálmi ríkisstjórnarinnar, svo sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi hennar.

Gæfuleysið hefur frá upphafi fallið að síðum ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður engin breyting á því í fyrirsjáanlegri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV