Gæfulítill Seðlabanki

Greinar

Seðlabankinn ber hluta ábyrgðar á öngþveiti, sem hefur verið í peningamálum þjóðarinnar á þessu ári. Hann hefur eins og jafnan áður misskilið hlutverk sitt á svipaðan hátt og Þjóðhagsstofnunin hefur gert og litið á sig sem auðmjúkan þræl sérhverrar ríkisstjórnar.

Í lögum um bankann segir, að stjórn hans megi opinberlega lýsa ágreiningi við ríkisstjórnir í efnahagsmálum, þótt honum beri að vinna að því, að hagstefna ríkisstjórna nái tilgangi sínum. En Seðlabankinn hefur í aldarfjórðung ekki flíkað sjálfstæðri skoðun.

Þessi ákvæði eru mikilvæg, þegar ríkisstjórn getur ekki framkvæmt eigin efnahagsstefnu, vegna þess að hún telur sig þurfa að kaupa atkvæði með tímabundnu góðæri fyrir kosningar. Þá á Seðlabankinn eftir mætti að standa vörð um stefnuna til að brúa bilið yfir kosningar.

Frá upphafi þessa árs og fram yfir mitt ár horfði Seðlabankinn áhugalaus á hrunið, sem hófst, þegar Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra urðu helteknir kosningaskjálfta. Í júlí reyndi bankinn fyrst að hemla.

Fleiri tóku þátt í ábyrgðinni á þessu. Aðilar vinnumarkaðarins töldu sér trú um, að þeir gætu hækkað lægstu laun án þess að hækkunin færi í launaskriði upp alla hálaunaflokka. Og bankarnir, með Landsbankann í broddi fylkingar, kunnu sér ekki hóf í útlánum.

Nú eru þessir aðilar með allt niðrum sig á kostnað þjóðarinnar. Ný ríkisstjórn er með ráðgerðan þensluhalla næsta árs upp á fjóra­fimm milljarða og fer mun hærra. Hún hefur í raun magnað verðbólgu, afskræmt gengi krónunnar og efnt til milljarða viðskiptahalla.

Umræðan um þátt Seðlabankans í þessari ógæfuþróun er gagnleg og brýn, rétt eins og nýleg umræða um mikinn og vaxandi skriðdýrshátt Þjóðhagsstofnunar gagnvart sérhverri ríkisstjórn. Seðlabankastjóra skortir ekki völd, heldur kjark til að nýta þau til góðs.

Sumir segja, að þetta sýni, að veita beri bankanum aukin völd til að fyrirskipa hitt og banna þetta, í hefðbundnum skömmtunarstíl íslenzkum. Það er ekki rétta leiðin, enda er löng harmsaga af peningafrystingu Seðlabankans, sem hefur magnað fjármögnun gæludýra.

Þjóðin á að geta heimtað af hinum fjölskipaða Seðlabanka, að hann safni ítarlegri, betri og skjótari tölum um stöðu fjármála þjóðarinnar og birti þær hraðar. Ástæðulaust er, að launaskrá bankans sé eitt athyglisverðasta dæmið um dulbúið atvinnuleysi í landinu.

Til þess að auðvelda bankanum þetta verk er hugsanlega hægt að geta þess ítarlegar í lögum um bankann, þótt frestur á slíku megi ekki verða honum til afsökunar. Á tölvuöld ætti þjóðin raunar að hafa aðgang að tölum, sem sýna alla peningastöðu líðandi stundar.

Um leið er brýnt, að Seðlabankinn túlki þessar tölur jafnóðum, en bíði ekki eftir ársfundi sínum. Seðlabankastjórum er líka skylt að mótmæla, ef aðgerð eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar stríðir gegn yfirlýstum markmiðum hennar, og skýra þann ágreining sinn rækilega.

Áhrifamáttur Seðlabanka til góðs felst ekki í valdi hans til boða og banna, heldur í siðferðilegu aðhaldi, sem byggist á skýrum upplýsingum um stöðu mála í núinu ­ og á vilja kjósenda til að hafna stjórnmálamönnum, sem reyna að virða þetta aðhald að vettugi.

Það eru seðlabankamenn, sem hafa sjálfir valið að hafa hann illa rekinn og ósjálfstæðan. Það er þeim sjálfum, sem ber að nota umræðuna til að bæta starf sitt.

Jónas Kristjánsson

DV