Gælt við kukl.

Greinar

Skerandi dæmi um efnahagsvit ríkisstjórnarinnar og ráðgjöfina, sem hún sætir í þeim efnum, eru hugleiðingar ráðherra og ráðgjafa þeirra um, hvort taka eigi erlend lán fyrir hallarekstri ýmissa opinberra þjónustufyrirtækja.

Í vaxandi mæli hafa ríkisstjórnir seilzt til þessarar aðferðar til að halda í gangi orkufyrirtækjum á borð við Landsvirkjun og Hitaveitu Reykjavíkur og raunar fleiri opinberum fyrirtækjum, sem selja almenningi þjónustu.

Þetta er gert til að hindra, að eðlilegar og nauðsynlegar verðhækkanir á þjónustunni fari út í vísitölurnar, sem ríkisstjórnir eru alltaf að berjast við að halda niðri. Þetta er svokallað stríð við verðbólguna.

Eins og jafnan vill verða í opinberum stofnunum er ekki auðvelt að finna leiðir til sparnaðar í rekstri, svo sem að nýta vinnutímann betur, þótt oft hafi verið bent á, að víða er hann óhæfilega illa nýttur.

Enda virðast ráðherrar og ráðgjafar þeirra hafa gefizt upp við að heimta skárri rekstur og segjast nú aðeins hafa um að velja hækkun á verði þjónustunnar eða erlend lán, jafnvel þótt slík lán séu þegar komin út í öfgar.

Smám saman hafa erlendar skuldir opinberra þjónustufyrirtækja, einkum þeirra, sem afla orku og dreifa henni, magnazt svo, að þær nema meirihluta allra skulda Íslendinga í útlöndum og eru að sliga þjóðfélagið.

Erlendar skuldir nema nú um helmingi af árlegri þjóðarframleiðslu og árleg greiðslubyrði af þessum skuldum nemur um fjórðungi af árlegum útflutningstekjum. Þessi hlutföll hafa sigið mjög hratt á ógæfuhliðina undanfarin ár.

Skuldasúpan er að verulegu leyti orðin til af því, að stjórnvöld treystast ekki til að láta okkur greiða fullt verð fyrir hita og rafmagn og kjósa heldur að velta greiðslubyrðinni yfir á afkomendurna, sem eiga að erfa landið.

Undirverð á hita og rafmagni í mesta þéttbýlinu leiðir svo til samanburðar við strjálbýlið, sem heimtar jafnan rétt. Afleiðingin er verðjöfnun á rafmagni, olíustyrkir til húshitunar og aðrar hliðstæðar niðurgreiðslur.

Miklu vitlegra væri hins vegar að jafna orkuverðið upp á við, – láta þjóðina borga til fulls orkuna, sem hún notar, í stað þess að dreifa kostnaðinum á næstu kynslóðir, sem eiga að bæta þessu böli ofan á ofveiði okkar og ofbeit.

Þetta hefði verið heppilegri leið til að ráðast á lífskjörin en að skera niður verðbætur á laun. Sú skerðing dregur einmitt núna úr kjarki ráðamanna til að halda réttum mikilvægum atriðum á borð við orkuverð og krónugengi.

Enn einu sinni eru ráðherrar og ráðgjafar þeirra að gamna sér við, að þeir geti sparað sér nokkur vísitölustig í hinu indæla verðbólgustríði sínu með því að falsa verð á rafmagni og heitu vatni og safna skuldum í staðinn.

Margoft hefur verið bent á, að þessi iðja misviturra manna er meira en lítið þjóðhættuleg. Hún verður sjúklegri með hverju árinu, eftir því sem skuldir þjóðarinnar í útlöndum nálgast suðupunktinn, er þá verður ekki lengur haminn.

Samt þykjast menn geta verið ráðherrar og efnahagsráðgjafar upp á þau býti, að enn komi til greina að galdra brott heimatilbúinn vanda með því að auka hina geigvænlegu skuldabyrði þjóðarinnar. Það er ekki von, að vel gangi.

Jónas Kristjánsson.

DV