Gæludýr borgarinnar

Greinar

Embættismenn Reykjavíkurborgar hafa upplýst, að ekki er einsdæmi, að gæludýr og þurfalingar fái sérstaka fyrirgreiðslu hjá borginni. En það hlýtur þó að vera afar sjaldgæft, að borgarfulltrúi fái fyrirgreiðslu á borð við þá, sem Júlíus Hafstein hefur fengið.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fékk í fyrsta lagi eftirsótta lóð, sem margir hefðu viljað borga nokkrar milljónir króna fyrir að fá. Í öðru lagi fékk hann að hefja framkvæmdir á lóðinni án þess að hafa greitt tilskilin gjöld vegna byggingarleyfis og gatnagerðar.

Þessi uppgötvun er óþægileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Borgarstjórnarkosningar verða að vori. Í kosningabaráttunni verður erfitt að svara þeirri röksemd, að langvinnur meirihluti eins flokks leiði til spillingar, til dæmis í skömmtun gæða, sem of lítið er til af.

Að undanförnu hafa stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins talið sig hafa hreinni skjöld en annarra flokka menn, sem hafa lent í margvíslegum hremmingum. Forustumenn flokksins hafa lagzt eindregnar í orði gegn pólitískri spillingu en forustumenn stjórnarflokkanna.

Telja má víst, að á næstu misserum muni kjósendur spyrja eftir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, sem vilja skera upp herör gegn pólitískri spillingu og gera eitthvað áþreifanlegt gegn henni. Þetta verður eitt málanna í byggðakosningunum á vori komanda.

Fólk er orðið langþreytt á brennivínskaupum ráðherra og svindli þeirra með ferðapeninga. Það er orðið langþreytt á forgangi stjórnmálamanna að ódýrum lífeyri. Það er orðið langþreytt á misnotkun þeirra á fé úr opinberum sjóðum til fyrirtækja, sem þeir eiga.

Fólk sættir sig ekki heldur við, að sveitarstjórnarmenn fái eftirsóttar lóðir og njóti síðan sérstakrar fyrirgreiðslu vegna þeirra. Skömmtunar- og undanþágukerfið er afleitt út af fyrir sig, en verður margfalt verra, þegar fulltrúar kjósenda fara sjálfir að njóta góðs af.

Lóðir og hús eru hefðbundinn vettvangur spillingar víða um heim og hefur rækilega verið kortlagður af fræðimönnum. Stundum er skipulag notað til að hækka lóðir eða land í verði. Víða erlendis er það ein algengasta tegund spillingar á sviði bæjar- og sveitarstjórna.

Um slíkt hefur blessunarlega ekki verið að ræða í Reykjavík, af því að borgaryfirvöld hafa áratugum saman verið svo forsjál að kaupa allt borgarlandið, langt upp í sveit. Borgin hefur því sjálf átt allt landið, sem skipulagt hefur verið eða staðið til að skipuleggja.

Verr hefur tekizt til í úthlutun lóða. Lengst af hefur of lítið framboð verið af lóðum. Menn hafa grætt á að fá úthlutað leigulóðum, sem þeir síðan framselja öðrum gegn greiðslu. Myndazt hefur svartur markaður á þessu sviði, eins og jafnan, þegar gotterí er skammtað.

Á síðustu árum hefur dregið úr lóðaspillingu. Með því að setja kraft í skipulag og lóðaúthlutun í Grafarvogi og Keldnaholti og á Gufuneshöfða náði Reykjavíkurborg jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar íbúðalóða. Einnig hefur jafnvægi aukizt í atvinnulóðum.

Undantekningar hafa helzt falizt í afmörkuðum lóðum, sem eru nálægt borgarmiðju, svo sem við Lágmúlann. Slíkar lóðir ætti raunar að setja á uppboð eins og gert var í Stigahlíð sællar minningar. Það er borginni til álitshnekkis að hafa horfið frá þeirri braut.

Vonandi verður Lágmúlahneykslið til þess, að borgarstjóri fari að útrýma vinnubrögðum skömmtunar og undanþága, sem alltof oft falla gæludýrum í skaut.

Jónas Kristjánsson

DV