Farið frá krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar sunnan Trölladyngju um Gæsavötn til Öskju.
Gæsavötn eru tvö grunn vötn í 920 metra hæð með háfjallagróðri umhverfis, vin í melöldum. Skammt austur af þeim fundust kofarústir í 1214 metra hæð. Steinþór Sigurðsson lýsir þeim svo: “Kofinn er hlaðinn upp úr móbergi, hringlagaður, rúmlega 2 metrar í þvermál að neðan, en hefur verið hlaðinn upp í strýtu. Þakið er fallið niður og kofinn auk þess hálffullur af sandi. Dyrnar snúa að vötnunum og er gott útsýni úr þeim yfir alla sléttuna.” Svo hrjóstrugt er þarna, að tæplega hefur þetta verið vistarvera útilegumanna. Hugsanlega hafa ferðamenn á Vatnajökulsvegi hlaðið þetta til að hafa skjól á langri og kuldalegri leið. Trölladyngja er stærsta gosdynja landsins, rís 500-600 metra yfir umhverfið. Víðáttumikil hraun hafa runnið frá henni. Í Urðarhálsi er gífurlega víður gígur, 1100 og 800 metrar að þvermáli og 170 metra djúpur.
Byrjum á krossgötum Bárðargötu og Nýjadalsleiðar. Förum suðaustur Gæsavatnaleið og síðan til austur milli Trölladyngju að norðanverðu og Dyngjujökuls að sunnanverðu. Förum til austurs sunnan við Dyngjuháls, um fjallaskálann í Kistufelli og sunnan við Urðarháls, austur í Flæður Jökulsár á Fjöllum. Förum þaðan norðaustur að Dyngjufjöllum, þar sem við komum að leiðinni úr Dyngjufjalladal austur í Öskju.
49,3 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Gæsavötn: N64 46.723 W17 30.792.
Kistufell: N64 48.663 W17 13.992.
Jeppafært
Athugið gosið í Holuhrauni.
Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Vonarskarð.
Nálægar leiðir: Kambsfell, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort