Gaflfellsheiði

Frá Búðardal í Dölum um Gaflfellsheiði að Snartartungu í Bitrufirði.

Forn leið milli Hvammsfjarðar í Dölum og Bitrufjarðar á Ströndum. Heiðin er að mestu gróin. Hennar er getið í Eyrbyggju, þar sem sagt er frá aðför Snorra goða, Sturlu Þjóðrekssonar og um áttatíu fylgismanna þeirra að óeirðamanninum Óspaki á Óspakseyri í Bitrufirði, sem hafði um sig flokk ribbalda. Felldu þeir Óspak og tvístruðu óaldarflokknum. Sturlunga segir, er Þorvaldssynir Vatnsfirðingar riðu suður Gaflfellsheiði 1229 í Sauðafellsför í aðför að Sturlu Sighvatssyni. Hann var ekki heima, en Þorvaldssynir unnu hervirki á Sauðafelli. Fræg eru orð Sturlungu um viðbrögð Sturlu, sem spurði, hvort Solveigu, konu hans, hefði verið mein gert. Honum var sagt, að svo væri ekki. “Síðan spurði hann einskis” segir Sturlunga.

Förum frá hesthúsahverfinu í Búðardal með þjóðvegi 60 norður í Ljárskóga og þaðan norðvestur veiðiveg upp með Fáskrúð að austanverðu. Við eyðibýlið Ljárskógarsel förum við áfram norður dalinn, fyrst austan Fáskrúðar og svo vestan árinnar. Síðan förum við áfram norður fyrir austan Lambafell, um leitarkofann Ljárskógaheiði við Hvanneyrar og meðfram Stiklukvísl upp á Gaflfellsheiði í 320 metra hæð austan við Orrustuhryggi. Þar erum við milli Gaflfells að vestan og Stóravatns að austan. Áfram förum við norður milli Hrútafells að vestan og Rjúpnafells að austan og niður í Brunngilsdal. Þangað niður förum við nokkuð bratt niður með Heiðargili að vestanverðu. Í gilinu er Heiðargilsfoss. Niðri í dalnum mætum við leið ofan af Hölknaheiði. Þar er eyðibýlið Brunngil og þangað liggur erfið dráttarvélaslóð úr byggð. Förum dalinn fyrst norður og síðan norðaustur um Gullbárðarflóa og austur fyrir endann á Tungumúla. Þar komum við í hlað á Snartartungu í Bitrufirði á Ströndum.

43,4 km
Snæfellsnes-Dalir, Vestfirðir

Skálar:
Ljárskógaheiði: N65 17.150 W21 32.708.

Nálægir ferlar: Miðdalir, Lækjarskógarfjörur, Hróðnýjarstaðir, Fáskrúð, Snartartunguheiði.
Nálægar leiðir: Hvammsfjörður, Botnalaxhæðir, Hölknaheiði.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag