Gagnabanki á netinu

Hestar

Björn Kristjánsson, forstöðumaður Söguseturs íslenzka hestsins:

Sögusetur íslenzka hestsins er að opna heimasíðu sína, www.sogusetur.is, sem væntanlega verður komin í gagnið, þegar þetta viðtal birtist í Eiðfaxa. Á síðuna verður safnað margvíslegum upplýsingum, sem tengjast sögu íslenska hestsins. Meðal efnis, sem þegar er komið inn, er yfirlit yfir kynbótasýningar og upplýsingar um öll kynbótahross, sem voru skráð í ættbók allt frá þeim tíma, er fyrst var farið að færa ættbókina og fram til 1945. Þar má finna ýmsar upplýsingar , sem ekki hafa birst áður opinberlega, m.a. dómsorð flestra hrossanna. Þetta efni er að miklu leyti unnið upp úr handrituðum frumheimildum, sem varðveittar hafa verið hjá Bændasamtökunum.

Margt fleira áhugavert efni er að finna á þessum vefsíðum. Þar er einkum um að ræða eldra efni, bæði greinar og kaflar úr bókum, sem nú er gert aðgengilegt. Einnig er þar að finna frumsamdar greinar um ýmis efni sem tengjast sögu íslenska hestsins. Sérstaklega má nefna yfirlitsgrein reiðver og reiðtygi fyrri tíma eftir Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra Byggðasafns Skagfirðinga.

Ætlunin er að bæta efni inn á þessar heimasíður nokkuð jafnt og þétt, þannig að smám saman verði þarna til gagnabanki á netinu, þar sem áhugamenn um sögu íslenska hestsins og hestamennsku geta leitað fanga í.

Veglegt heimildasafn

Sögusetrið var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 og er þar til húsa. Að því standa Hestamiðstöð Íslands, Hólaskóli og Byggðasafn Skagfirðinga. Því er ætlað að verða alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenzka hestsins, svo sem uppruna, þróun, eiginleika, notkun og áhrif hans á samfélagið frá landnámi til nútíma.

Meginverkefnið er að vinna að rannsóknum á sögu íslenska hestsins, og búa til veglegt heimildasafn um íslenska hestinn. Sögusetrið mun vista gagnagrunn um minjar og heimildir, svo sem skjöl, prentmál og ljósmyndir. Það mun hafa samráð við sérhæfðar stofnanir um vistun slíkra heimilda og aðgang manna að þeim. Sögusetrið hefur gert samstarfssamkomulag við helstu samtök í hestamennsku á Íslandi (þ.e. Landsamband Hestamannafélaga, Bændasamtök Íslands, Félag Tamningamanna og Félag Hrossabænda), sem felur í sér að Sögusetrið hafi aðgang að gögnum og heimildum sem þessi samtök búa yfir.

Eitt helsta markmið Sögusetursins er að koma upp veglegri sýninga- og rannsóknaaðstöðu á Hólum, þar sem verður að finna varanlega yfirlitssýningu um sögu íslenzka hestsins. Það mun standa fyrir lifandi þemasýningum og sögulegum yfirlitssýningum í samráði við aðra aðila. Það mun standa fyrir málþingum og fyrirlestrum, efla heimasíðuna og gefa út fræðsluefni.

Töltsýning á Hólum

Í 5. tbl. Eiðfaxa á þessu ári var sagt frá málþingi um tölt, sem sögusetrið stóð fyrir á Hólum í vor. Þar var sagt frá erindum á málþinginu og ýmsum gögnum, sem lögð voru fram, svo sem um arfgengi tölts.

Í kjölfar málþingsins var sett upp sýning á Hólum. Hún bar heitið: Apalgangur og yndisspor – Tölt í 150 ár. Þar var leitast við að fara yfir sögu töltreiðar á Íslandi, og meðal annars leitað fanga í fornum heimildum. Á sýningunni var lýst upphafi töltreiðar í nútímaskilningi um miðja 19. öld, þar sem fóru einna fremstir Jón Ásgeirsson á Þingeyrum og séra Jakob Benediktsson í Miklabæ. Litið var á hvernig tölt hefur verið skilgreint á mismunandi hátt í gegn um tíðina, og allt til dagsins í dag, og einnig var fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á reiðmennsku og reiðtygjum á þessum tíma.

Námskeið

Sögusetrið mun í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands standa fyrir námskeiði sem haldið verður í Reykjavík í febrúar og mars á næsta ári. Á þessu námskeiði verða skoðaðir ýmsir þættir sem tengjast sögu íslenska hestsins og og hestamennsku hér á landi. Meðal fyrirlesara verða Dr. Stefán Aðalsteinsson, Þórður Tómasson, safnstjóri á Skógum, Kristinn Hugason fv. hrossaræktarráðunautur og Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur. Þeim sem áhuga hafa á að taka þátt í þessu námskeiði er bent á að hafa samband við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands til að fá nánari upplýsingar. Ýmislegt fleira er á döfinni, sem verður auglýst sérstaklega síðar.

Hafið samband!

Að lokum eru eindregin tilmæli til allra þeirra sem hafa í fórum sínum ljósmyndir, kvikmyndir, ritaðar heimildir eða önnur gögn sem tengjast sögu íslenska hestsins og hestamennsku, að hafa samband við Sögusetrið.
Meðal efnis sem við erum sérstaklega að leita að eru myndir frá fyrstu landsmótum og fjórðungsmótum sem haldin voru, og eins af nafngreindum kynbótahrossum og gæðingum frá því fyrir 1980.

Sími Söguseturs íslenzka hestsins er 455 6345, netfang bjorn@holar.is og veffang www.sogusetur.is.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 10.tbl. 2003.