Frá Skógarhólum í Þingvallasveit að Gilstreymi í Lundareykjadal.
Leiðin er svo fáfarin í seinni tíð, að reiðgötur eru víða ekki sýnilegar lengur. En auðvelt er að rekja sig eftir landslaginu, ef skyggni er sæmilegt. Minni truflun er á þessari leið en á Uxahryggjum. Gott væri, að hestamenn með rekstur sinntu henni betur. Gamla leiðin liggur norður frá Svartagili, en léttara kann að vera að fara fyrst frá Svartagili um kílómetra vestur eftir jeppaslóð áður en beygt er til norðurs. Þannig dreifist brattinn betur.
Þetta er gömul þjóðleið milli Suðurlands og Vesturlands. Í Sturlungu er sagt frá för Órækju Snorrasonar og Sturlu Sighvatssonar um Gagnheiði á Þingvöll með fimmhundruð manna liði 1236 til að hefna Snorra Sturlusonar. Gagnheiðarvegur er styttri leið milli byggða en Uxahryggir og Sandkluftir. Öldum saman riðu Vestlendingar þessa leið til Alþingis á Þingvöllum.
Förum frá Skógarhólum í Þingvallasveit í 140 metra hæð eftir afleggjara vestur fyrir Biskupsbrekkur og síðan norður að bænum Svartagili. Vörður á vesturbrún Svartagils vísa veginn. Við förum þar upp á kambinn og síðan eftir honum inn á Gagnheiði austan Súlnabergs. Höldum okkur nálægt berginu. Þar heitir Gagnheiðarvegur. Förum beint norður fyrir endann á Súlnabergi í 580 metra hæð og síðan niður brekkurnar og vestur fyrir Krókatjarnir þrjár, sem eru austan og ofan við Hvalvatn. Áfram þvert yfir veginn að Hvalvatni og frá honum til norðurs vestan við Hrosshæðir. Þar er hlið á girðingu, sem liggur niður í Hvalvatn. Síðan vestan við Kvígindisfell, yfir Kvígindisfellshala og niður Selhæðir að austurenda Eiríksvatns. Norður fyrir vatnið, meðfram Eiríksfelli, yfir jeppaveginn niður í Skorradal og síðan yfir Lágafell að þjóðvegi 52 við Gilstreymi í Lundareykjadal í Borgarfirði.
22,1 km
Árnessýsla, Borgarfjörður-Mýrar
Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Biskupavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Teigfell, Skorradalur, Kúpa, Grillirahryggur, Helguvík.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort