Gagnkvæm mismunun.

Greinar

Rainbow Navigation hefur í eitt ár annazt flutninga Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem íslenzk skipafélög sáu áður um. Tilraunir utanríkisráðherra til að leysa málið í viðræðum við bandarísk stjórnvöld hafa engan árangur borið og munu að óbreyttu engan árangur bera.

Eftir komu yfirmanns Norður-Evrópudeildar bandaríska utanríkisráðuneytisins hingað til lands í síðustu viku má telja ljóst, að bandarísk stjórnvöld hafa ekki hug á að gefa eftir í málinu. Við verðum því að fara nýjar leiðir, ef við viljum ekki gefast upp.

Gömul lög gilda í Bandaríkjunum um, að bandarísk skipafélög hafi forgang að flutningum á vegum bandarískra herja í útlöndum. Þetta er verndarstefna, sem átti á sínum tíma að verja ósamkeppnishæf skipafélög þar vestra fyrir erlendri samkeppni, en það tókst ekki.

Snjallir lögfræðingar vestra dustuðu rykið af lögum þessum og náðu sér í aflóga skipafélag, Rainbow Navigation. Það hefur nú ekki aðeins náð næstum öllum flutningum varnarliðsins, heldur hefur í vaxandi mæli notað tækifærið til að koma sér inn á íslenzka markaðinn.

Rainbow Navigation hefur til þess góða aðstöðu, því að það býður upp á tómar lestar til baka til Bandaríkjanna. Þetta hefur enn aukið tjón íslenzku skipafélaganna, sem eru hvert fyrir sig rekin með tugmilljón króna tap á ári. Ameríkurúta þeirra er orðin mjög erfið.

Viðskiptavinir virðast ekki hafa grætt á þessari breytingu. Varnarliðið verður að borga það sama og áður. Og íslenzkir viðskiptavinir Rainbow Navigation segjast borga hið sama og þeir greiða íslenzku skipafélögunum. Hagurinn er allur hjá hinum snjöllu lögfræðingum.

Nú er það gömul regla, sem hefur verið notuð til að hafa hemil á verndarstefnu, að hún verði gagnkvæm. Ef eitthvert ríki heldur uppi mismunun sínum athafnamönnum í hag, þá gera önnur ríki þessa mismunun gagnkvæma. Annars mundu ríki freistast meira til verndarstefnu.

Við getum sett lög á þá leið, að gagnkvæmt skuli vera, ef eitthvert viðskiptaríki mismunar íslenzkum flutningafyrirtækjum, til dæmis með því að neita þeim um að bjóða á jafnréttisgrundvelli í flutninga til og frá Íslandi. Sé svo, þá banni íslenzk lög hið sama hjá hinu ríkinu.

Samkvæmt slíkum lögum yrði Rainbow Navigation óheimilt að flytja vörur til og frá Íslandi. Þar með mundu þær siglingar leggjast niður eins og siglingar íslenzkra skipafélaga fyrir Varnarliðið. Bandarísk stjórnvöld mundu þá lenda í flutningaklemmu.

Hugsanlegt er, að til dæmis mafían yrði þá beðin um að láta félög hafnarverkamanna hefna sín með löndunarbanni á íslenzkum freðfiskútflutningi. Íslenzk stjórnvöld verða að meta líkur á slíkum gagnaðgerðum í kjölfar samþykktar gagnkvæmnilaga á Íslandi.

Því getur verið, að einhver önnur leið en gagnkvæmni henti betur til að þrýsta bandarískum stjórnvöldum til samninga á jafnréttisgrundvelli, annaðhvort beint eða á vegum GATT, hins vestræna viðskipta- og samkeppnissamnings. En gagnkvæmni virðist þó álitleg.

Ljóst virðist, að án gagnkvæmni eða annars hliðstæðs vopns sé utanríkisráðuneytið máttlaust í viðræðum um þessa flutninga. Komin er eins árs reynsla á, að snakkið eitt dugar ekki. Ef við ætlum ekki hreinlega að gefast upp, þarf mun ákveðnari aðgerðir í málinu.

Jónas Kristjánsson.

DV