Gagnleg hliðarbúgrein.

Greinar

Þótt gengið hafi á ýmsu í samskiptum íslenzkra stjórnvalda og Alusuisse um álverið í Straumsvík, er form samstarfsins þar þó hið vænlegasta í stóriðjumálum hér á landi. Það felst í, að Íslendingar eiga orkuverin og hinir erlendu aðilar eiga sjálfa stóriðjuna.

Í slíku samstarfi er bezt, að íslenzka ríkið viti, hvorum megin það situr við borðið. Í Straumsvík er vitað, að ríkið vill fá sem hæst verð fyrir orkuna og að Ísal vill sleppa með sem lægst verð. Í þessari andstöðu felast hreinar línur, sem vantar annars staðar.

Þótt Áburðarverksmiðjan sé engin stóriðja, hefur hún ætíð fengið orku á undirverði, því að ríkið er eigandinn. Og fróðlegt verður að sjá, hvernig gengur að fá Grundartangaverið til að taka á sig hliðstæða hækkun og Straumsvíkurverið hefur lagt á sínar herðar.

Hvort sem fyrirhuguð kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði verður að meirihluta eða minnihluta í eigu ríkisins, þá er ljóst’ að sú eignaraðild mun leiða til mikillar tregðu á að láta þá verksmiðju greiða sanngjarnt verð fyrir orkuna. Eignaraðild dregur úr kröfuhörku í samningum um orkusölu.

Vatnsafl landsins rennur að mestu arðlaust til sjávar. Við vitum. að víða má virkja, þótt staðir á borð við Gullfoss séu látnir í friði. Ráðagerðir stjórnvalda og virkjunarmanna um orkusölu til stóriðju fram til aldamóta eru hóflegar og skynsamlegar.

Við getum hæglega tekið lán til virkjana, ef tryggt er, að orkuverin njóti öruggra viðskipta og á orkuverði, sem greiðir niður þessar virkjanir. Þetta er auðlind, sem sjálfsagt er að hagnýta eins og fiskimiðin. Að hafna stóriðju yfirleitt er óhugnanlegt afturhald.

Sem betur fer situr helmingurinn af erlendum skuldum þjóðarinnar í orkuverum, sem hafa trygg viðskipti, bæði við almenning og fyrirtæki í landinu. Orkuverin munu greiða niður þessar skuldir. Eftir síðasta samninginn við Alusuisse munu þau raunar gera það hraðar.

Eina stjórnmálaaflið, sem virðist andvígt stóriðju hér á landi, er Kvennalistinn. Sú stefna virðist meira byggð á tilfinningum en raunsæi. Eða þá, að ruglað sé saman orkufrekum iðnaði og færibandaiðnaðinum, sem er að flytjast frá iðnríkjunum til þróunarlandanna.

Orkufrekur iðnaður er fámennur, greiðir há laun og hefur yfirleitt gott samstarf við stéttarfélög, nákvæmlega eins og hér í Straumsvík. Allt er þetta gerólíkt útlendum færibandaiðnaði. Og mengun frá orkufrekum iðnaði má örugglega halda í skefjum. Er ekki ræktaður lax við Straumsvík?

Við eigum að hafna afturhaldi Kvennalistans, fráhvarfinu frá orkufrekum iðnaði. En við eigum líka að hafna eyðslustefnu Alþýðubandalagsins, kröfunni um íslenzka eignaraðild eða meirihlutaeign í þessum iðnaði. Við höfum nóg annað að gera við takmarkað fjármagn.

Við getum leyft okkur að slá fyrir orkuverum, sem hafa trygg viðskipti við stóriðju. En við eigum ekki sjálf að taka áhættu af sveiflum stóriðjunnar eða fara inn á markað, sem við ráðum alls ekki við. Á því sviði borgar sig að hafa allt á þurru og selja bara orku.

Við eigum að leggja fé okkar í viðráðanlegan iðnað. Við eigum að nýta hverja krónu vel í atvinnutækifærum. Við eigum að sinna iðnaði, sem er í tengslum við iðnþróun okkar, þekkingu og aðrar aðstæður. En við skulum líta á orkusölu til stóriðju sem gagnlega hliðarbúgrein.

Jónas Kristjánsson.

DV