Gagnleg rannsókn.

Greinar

Skynsamlegt er að flýta rannsókn á samskiptum Útvegsbankans og Hafskips. Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt, að slík rannsókn fari fram á vegum viðskiptaráðherra, sem ekki er hrifinn af hugmyndinni. Hann hefur sagt þetta vera verkefni skiptaráðanda.

Niðurstöður skiptaráðanda munu ekki hreinsa andrúmsloftið í máli þessu. Hann á að fjalla um Hafskip, en ekki Útvegsbankann. Kröfurnar um rannsókn beinast hins vegar að því, hvort bankinn hafi verið misnotaður og hvort stjórnmálamenn hafi haft óeðlileg afskipti af málinu.

Nafn Alberts Guðmundssonar iðnaðarráðherra, fyrrum formanns bankaráðs Útvegsbankans og þar áður formanns Hafskips, hefur verið nefnt í þessu sambandi. Hann hefur sjálfur hvatt til þess, að hans þáttur í málinu verði rannsakaður, svo að hann verði hreinsaður af ásökunum.

Af þessu má ráða, að sérstök rannsókn er réttmæt. Ef Matthías Bjarnason viðskiptaráðherra er tregur, er ekkert við það að athuga, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. Boðað hefur verið, að tillaga um slíka nefnd Alþingis verði lögð fram í þessari viku.

Bezt væri, að slík nefnd liti aðeins víðar en til samskipta Útvegsbankans og Hafskips til þess að tryggja samræmi og jafnræði. Fleiri bankar hafa átt í vandamálum vegna erfiðra viðskiptavina. Er skemmst að minnast Fiskveiðasjóðs, sem löngum hefur lánað frjálslega.

Tap Útvegsbankans á Hafskipi hf. er nokkurn veginn í stíl við tap Fiskveiðasjóðs á tveimur togurum, sem nú liggja undir hamrinum. Mjög auðvelt er að halda því fram, að þau lán hafi bæði verið pólitísk og veitt gegn ráðum og aðvörunum skynsamra manna.

Víðari yfirsýn af því tagi gæti leitt í ljós almenna veikleika í ríkisbankakerfinu. Rannsóknin mundi þá ekki aðeins hreinsa andrúmsloftið í þessu tiltekna máli, heldur einnig leiða til endurbóta, sem kæmu í veg fyrir, að óráðslánveitingar héldu áfram.

Sennilega er stór hluti vandans sá, að stjórnmálamennirnir, sem sitja í bankaráðum og sjóðastjórnum, svo og fyrrverandi stjórnmálamennirnir, sem sitja í sjálfum bankastjórastólunum, líta ekki á mál með venjulegum augum bankamanna, heldur óskhyggjuaugum.

Ekki bætir úr skák, ef þessir stjórnmálamenn í gervi bankamanna hafa skjól af því, að þeir beri enga ábyrgð, því að ríkið borgi brúsann, þegar mistök verða. Þessa ríkisábyrgð þarf að afnema, helzt með því að breyta ríkisbönkum og ýmsum sjóðum í sjálfstæð hlutafélög.

Hafskipsmálið hefur ekki aðeins vakið athygli á brestum í bankakerfinu. Það hefur líka sýnt, hversu óvirkir aðilar stjórnir og endurskoðendur fyrirtækja eru í samanburði við erlendar hefðir. Framkvæmdastjórar ráða ferðinni í meira mæli en þekkist í nálægum löndum.

Skynsamlegt væri að nota tækifærið til að hefja smíði endurbóta á lögum um hlutafélög í þá átt, að staða stjórna og endurskoðenda verði efld, bæði skyldur þeirra og réttindi. Á sama hátt verði efld staða minnihluta í stjórnum fyrirtækja.

Ef rannsókn á samskiptum Útvegsbankans og Hafskips hreinsar andrúmsloftið í málinu og leiðir til endurbóta í stjórn banka og fyrirtækja, má segja það staðfesta, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.

Jónas Kristjánsson

DV