Gagnslausar loftárásir

Greinar

Íraks-kökkurinn festist í hálsi Vesturlanda, er George Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ákvað skyndilega í miðjum Flóabardaga að lýsa yfir sigri og senda hermennina heim, áður en þeim tókst að ná Bagdað á sitt vald og hrekja Saddam Hussein frá völdum.

Að baki mistaka Bush leyndist það ranga stöðumat, að hóflega sterkur leiðtogi í hóflega sterku Íraksríki væri nauðsynlegt mótvægi við Íran, sem þá var talið ekki síður hættulegt hagsmunum Bandaríkjanna. Þess vegna var Saddam Hussein ekki brotinn á bak aftur.

Síðar kom raunar í ljós, að Flóabardagi hafði ekki gengið eins vel og fullyrt hafði verið. Upplýsingar bandaríska hermálaráðuneytisins voru sumpart uppspuni frá rótum, svo sem fréttir af árangri Patriot-eldflauga, sem raunar hittu ekki eitt einasta skotmark.

Enda kom á daginn, að Saddam Hussein var fljótur að rétta úr kútnum. Þrátt fyrir vopnasölubann gat hann á undraverðum tíma komið hernaðarmætti sínum í svipaða stöðu og fyrir Flóabardaga. Það hefði hann ekki getað gert, nema af því að tjónið hafði verið ýkt.

Við höfum lært af Flóabardaga að taka ekki mark á fréttum bandaríska hermálaráðuneytisins. Loftárásir undanfarinna daga hafa geigað að venju og sumpart hitt fyrir vitlaus lönd, en tæpast komið í veg fyrir, að Saddam Hussein verði áfram til vandræða.

Hann mun strax að loftárásum loknum taka upp fyrri iðju við að framleiða sýklavopn og efnavopn, sem miða að því að flytja stríðið fyrr eða síðar til Bandaríkjanna sjálfra. Þetta verður ekki hindrað með loftárásum, heldur aðeins með hefðbundnum landhernaði.

Auðvelt er að sjá fyrir framhaldið á þessum menúett. Þegar búið er að sprengja nógu mikið í loftárásum, fellst Saddam Hussein á endurnýjað eftirlit. Síðan mun hann koma í veg fyrir, að eftirlitið skili árangri. Það mun svo leiða til vítahrings nýrra loftárása, ad absurdum.

Eina leiðin til að leysa vandann er að hertaka Írak, handtaka Saddam Hussein og helztu menn hans, koma á fót leppstjórn í Bagdað og ausa fjármunum í uppbyggingu til að snúa almenningsálitinu á sveif með sigurvegurunum. En þetta er of stór biti fyrir Bill Clinton.

Þegar Bandaríkin gátu safnað saman mörgum bandamönnum í stríð við Írak, misnotaði þáverandi forseti þeirra tækifærið. Sá liðsafnaður verður ekki endurtekinn, enda eru margir þáverandi bandamenn orðnir fráhverfir frekara stríði við Saddam Hussein.

Það hefur nefnilega komið í ljós, að ákvörðunin um að nota Saddam Hussein sem mótvægi við klerkana í Íran hefur gert það að verkum, að þolendur refsiaðgerða eru saklausir Írakar, en ekki forseti landsins. Víða á Vesturlöndum sætta menn sig ekki við þetta.

Viðskiptabannið á Írak brestur fyrr eða síðar. Núverandi loftárásir flýta fyrir endalokum þess. Stríðsaðgerðir, sem ekki hrekja núverandi valdhafa Íraks frá völdum, eru til þess eins fallnar að auka vestræna samúð með hörmungum almennings í Írak.

Sigurvegari Flóabardaga var ekki George Bush, heldur Saddam Hussein. Sigurvegari bardagans, sem nú stendur yfir, verður ekki Bill Clinton, heldur Saddam Hussein. Írakskur almenningur verður fyrir hremmingum og samstaða Vesturlanda bíður hnekki.

Af þessu má ráða, sem dæmin voru raunar áður búin að sanna, að Bill Clinton er engu hæfari en George Bush til að stýra ferð Vesturlanda inn í nýja öld.

Jónas Kristjánsson

DV