Sókn og gagnsókn Sverris Hermannssonar í Landsbankamálinu felst einkum í að nafngreina valdamenn, sem hann telur hafa verið sér þungir í skauti og saka þá um að vera ekki hótinu betri, nema síður sé. Þetta er hefnd hans fremur en útskýring á vandamálinu.
Samkvæmt greinum Sverris hafa ýmsir menn gert samsæri um að koma upp um hann og hann ætlar í staðinn að koma upp um þá. Siðalögmál koma hvergi nálægt þeim blóðnóttum, sem hann hefur boðað til. Við erum að horfa á frumstætt uppgjör milli stríðsherra.
Til dæmis segir Sverrir, að ráðherra og ríkisendurskoðun hafi valið rannsóknarefni og -tímabil til að hlífa bankastjóra, sem hafi verið í ferðaspillingu fremur en laxi og til að sleppa laxveiðiferð sama bankastjóra með núverandi bankaráðherra á kostnað bankans.
Sverrir sakar einn stjórnmálamann um að hafa stolið heilu ríkisfyrirtæki og annan um að hafa reynt að fá aflétt veði til að bjarga húsi undan hamri. Hann sakar ráðamenn óskabarns þjóðarinnar um að hafa reynt að beita bankanum til að koma höggi á keppinaut.
Greinar Sverris gefa um leið innsýn í spillt þjóðfélag, þar sem forustumenn stjórnmála, stórfyrirtækja og skömmtunarstofnana brugga ráð til að flytja völd og peninga, en koma jafnframt fram út á við með engilhreinan áhyggjusvip ábyrgra máttarstólpa þjóðfélagsins.
Fólk á erfitt með að sjá veruleikann að baki ímyndarinnar. Það treystir jafnvel bezt þeim, sem sízt skyldi. Með skorti sínum á mannþekkingu freistar almenningur þeirra, sem vilja komast til auðs og áhrifa. Þetta er forsenda spillingar á borð við Landsbankamálið.
Stjórnmál nútímans snúast ekki um hugmyndafræði, misjafnar leiðir til að þjóna Íslendingum. Hugsjónafólk er í miklum minnihluta meðal áhrifafólks stjórnmálanna, þótt Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekizt að fella þrjá bankastjóra, sem fóru óvarlega í spillingunni.
Flestir stjórnmálamenn landsins eru atvinnumenn í sjónhverfingum. Þeir brugga ráð til að tefla sér í valdastöðu, sem þeir geta notað sér og gæludýrum sínum til framdráttar. Almenningi halda þeir uppi á snakki, algerlega óskyldu því, sem þeir meina í rauninni.
Ráðabrugg af þessu tagi fólst í ákvörðuninni um að fórna þremur bankastjórum til að geta fremur slegið skjaldborg um bankaráðsmenn, ráðherra og ríkisendurskoðanda, sem allir vissu fyrir löngu, hvað bankastjórarnir voru að gera, en létu allir kyrrt liggja.
Ríkisendurskoðandinn vissi um málið fyrir tveimur árum, þegar hann fékk nótu frá endurskoðanda bankans. Ráðherrann vissi um málið fyrir fimm árum, þegar hann fór í lax með bankastjóranum. Bankaráðsformaðurinn hafði verið á 500 fundum með bankastjórunum.
Græðgi einstaklinga er hluti af þessari spillingu. Menn velta sér upp úr lífsþægindum, sem þeir láta borga fyrir sig. Þeir koma sér upp laxveiði og ferðahvetjandi reglum um greiðslur á ferðalögum. Fremstir fara í þessu ráðherrar, bankastjórar og æðstu embættismenn.
Minna ber á spillingunni að baki, samspili stórfyrirtækja, stjórnmála og skömmtunarstofnana. Í skjóli bókhaldsleyndar stjórnmálaflokka, sem þekkist ekki í nágrannalöndunum, eru flokkar fjármagnaðir af stórfyrirtækjum, sem vilja tryggja heppilega skömmtun.
Spillingin þrífst í skjóli almennings, sem treystir þeim bezt, sem mest eru á kafi í spillingunni og sízt eru til þess fallnir að breyta þeim leikreglum, sem breyta þarf.
Jónas Kristjánsson
DV