Þórir Gunnarsson gerði garðinn frægan á matstaðnum Reykjavík við göngugötuna milli Karlsbrúar og gamla borgartorgsins í Prag. Nú er hann kominn heim og hefur opnað veitingastofuna Jörund í stiftamtmannshúsinu við Lækjartorg. Þar var áður matstofan Happ. Þórir hefur endurbætt húsbúnað og hlynnt að innviðum hússins. Það stendur loksins undir sögufrægð sem fyrsta og eina konungshöll landsins. Þjónusta er galvösk og vel þjálfuð. Fiskurinn mætti hins vegar vera betri. Ráða þarf kokk, er getur keppt við valinkunna miðborgarstaði í að elda ferskan fisk. Samkeppni á því sviði hefur harðnað hér meðan Þórir var í Prag.